Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:17:03 (5720)


[15:17]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur nú ekkert illa á mér. Hins vegar er nú erfitt að menn séu ekki hér jafnir undir hamrinum hjá hæstv. forseta þegar þingmönnum leyfist að kalla menn gjálífismenn. Ég hef verið heiðvirður maður og ekki staðið í neinu slíku. Þannig að þetta var köld kveðja og sett fram náttúrlega í þeim taugatitringi sem hrjáir nú þennan hv. þm. Ég veit og trúi vart öðru en að hann eigi eftir að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum, hvort sem hann gerir það hér uppi eða síðar.
    Hvað hitt atriðið varðar þá er það alveg ljóst í greinargerð Markúsar Sigurbjörnssonar að hann segir það eitt að lagasetning með þessum hætti, að lögfesta nál., honum finnst það ekki eðlileg þingvenja og leggur . . .  ( EgJ: Þú verður að vitna í þingskjalið.) Ég er hér með þingskjalið hér fyrir framan mig, hv. þm. Hann leggur því fremur til að við sem viljum taka af vafann föllum frá brtt. en lýsum því yfir við atkvæðagreiðsluna hver og einn að við styðjum frv. Þetta er hans meining. En ég held að það verði nú margt óvenjulegt að gerast hér við þessa atkvæðagreiðslu og þess vegna stöndum við fast á því að brtt. við frv. um að nál. verði lögfest til að taka af vafa, það gengur hér fram og hv. þm. Egill Jónsson ætti nú að ræða við sína lögmenn hvað það þýðir ef hann greiðir atkvæði gegn breytingartillögunni, hvort það þýðir ekki það sama að hann sé á nýjan leik að skapa mikla réttaróvissu og drepa málinu á dreif.