Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:19:07 (5721)


[15:19]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Það er með nokkrum ólíkindum hvað landbúnaðarmálin hafa orðið hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkum hennar þung í skauti seinasta árið.
    Þessi mál hafa komið hér inn í þingið þrívegis á seinustu 12 mánuðum og ávallt valdið miklu uppnámi innan stjórnarflokkanna. Á sl. vori mátti ekki miklu muna að núverandi ríkisstjórn yrði að fara frá, hún glataði sínum meiri hluta vegna afreiðslu slíks máls, og þetta hefur síðan endurtekið sig á þessum vetri. Nú er svo komið að verið er að afgreiða þriðja frv. af þessu tagi og hv. landbn. hefur þverklofnað. Formaður nefndarinnar er þar í miklum minni hluta með aðeins einn þriðja hluta nefndarinnar á bak við sig. En stjórnarandstæðingar mynda meiri hluta í nefndinni ásamt einum stjórnarþingmanni og nefndin skiptist í fjóra parta. Þetta er nokkuð einstakt í þingsögunni að ég hygg.
    Í sjálfu sér er það ekkert merkilegt þó að innflutningur landbúnaðarvara valdi miklum deilum og að um slík mál verði langar umræður. Ég held að enginn þurfi að vera neitt undrandi á því vegna þess að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Annars vegar eru hagsmunir neytenda sem gera sér vonir um að fá sem ódýrastar landbúnaðarvörur á sín borð. Hins vegar eru það innlendir framleiðendur sem eiga sína atvinnugrein algjörlega undir því komna hvort hinn innlendi markaður helst í þágu íslensks landbúnaðar eða ekki. Það er ekkert ofsagt í þeim efnum að þegar um innflutning landbúnaðarvara er að ræða þá er þar verið að ræða um líf eða dauða fyrir íslenskan landbúnað. Það er ósköp auðvelt að viðurkenna það að erlendar landbúnaðarvörur eru heldur ódýrari í framleiðslu af mörgum ástæðum, m.a. vegna veðurfars, vegna mikilla niðurgreiðslna víða og vegna þess að þær eru gjarnan framleiddar í svo miklu, miklu meira magni heldur en okkur er fært hér á Íslandi. En á hitt verður að líta að verulegur samdráttur í íslenskri framleiðslu mun að sjálfsögðu leiða af sér mikið atvinnuleysi, ekki aðeins meðal bænda og búaliðs heldur líka meðal þeirra sem hafa atvinnu sína í þorpum og bæjum víðs vegar um land af úrvinnslu landbúnaðarvara.
    Það er því ekkert merkilegt þótt miklar deilur verði um landbúnaðarmál hér á hv. Alþingi. Þetta er eitt af stórmálum samtímans og fullkomlega eðlilegt að um það verði harðar deilur. Hitt er kannski öllu merkilegra hvað málið hefur þvælst fyrir núverandi stjórnarflokkum sem hafa hvað eftir annað komist að bráðabirgðasamkomulagi um það hvernig þeir vilja halda á þessu máli en síðan hefur samvinnan ævinlega fokkast upp og úr orðið aldeilis makalaust þras sem á sér ekki mörg fordæmi í íslenskri stjórnmálasögu og er það mikið sagt.
    Ég held að allt þetta þras milli stjórnarflokkanna sem gjarnan hefur gengið út á það hvað menn féllust á fyrir svo og svo mörgum mánuðum, hverju menn lofuðu fyrir svo og svo mörgum mánuðum og hvað menn ætla sér að efna og hvað ekki af því sem þeir voru búnir að koma sér saman um, ég held að öll þessi þræta, þetta ómerkilega þras, sé auðvitað fyrst og fremst vitnisburður um ástandið á stjórnarheimilinu, það forustuleysi sem þar er ríkjandi og þá erfiðleika sem þar er að finna í sambúð flokkanna. Ég held að jafnvel þótt sjónarmiðin séu kannski eitthvað mismunandi og áherslurnar töluvert ólíkar þá mundu flestir samstarfsaðilar í ríkisstjórn hafa komið sér saman um mál af þessu tagi án þeirra óskapa sem orðið hafa ef vilji væri fyrir hendi og ef þess háttar menn hefðu lagt hönd á plóginn sem hefðu getað unnið saman á skaplegan hátt. En það er fyrst og fremst þetta forustuleysi, þetta kraftleysi hjá liðsoddum stjórnarflokkanna sem einkennir þetta mál miklu frekar en nokkuð annað. Að þeir skuli æ ofan í æ hafa komið sér saman um hvernig á þessum málum skuli haldið og síðan skuli það samkomulag hafa fokkast upp aftur og aftur í kjölfarið. Þó tók auðvitað steininn úr hér á dögunum þegar í ljós kom að stjórnarflokkarnir voru með sameiginlegar tillögur í þessu máli en sáu sig tilneydda til að skila tveimur nál., með tvenns konar skilningi á því hvað í tillögunum fælist.
    Ég tel nú að það sé að bera í bakkafullan lækinn að fjölyrða öllu meira um þá uppákomu en menn hafa þegar gert hér úr ræðustól Alþingis og sé enga ástæðu til þess að draga umræðuna á langinn með því að fara ofan í þá illdeilu frekar en menn hafa gert hér á undan mér. Ég leyni því hins vegar ekki að ég tel fulla þörf á því að þetta mál verði fullskýrt. Ég tel það óviðunandi að tillögur og frumvörp séu túlkuð á fleiri en einn veg þegar þau eru afgreidd hér frá Alþingi og þess vegna tel ég nauðsyn á því að það sé tekið af skarið um það hvernig túlka beri ákveðnar setningar í þessu frv. Þess vegna hef ég beitt mér fyrir því að það er flutt brtt. við 3. gr. frv., þar sem segir, með leyfi forseta, að síðari málsliður 1. efnismgr. orðist svo: ,,Verðjöfnun á unnum og/eða samsettum vörum miðast við þátt allra landbúnaðarhráefna, innlendra og erlendra, í verði viðkomandi vöru.``
    Ég tel að þetta orðalag sé miklu skýrara heldur en það sem fyrir er í frv. og ég trúi ekki öðru en að flestir hv. þm. séu mér sammála um það hvort sem menn kjósa nú að greiða tillögunni atkvæði eða ekki. Það er engin launung á því að þetta orðalag er miklu nær skilningi meiri hluta þingmanna á því hvað í frv. felst og er fyrst og fremst flutt til þess að skýra lagatextann til fulls, taka af öll tvímæli.
    Ég hjó eftir því að hv. formaður landbn., Egill Jónsson, fagnaði þessari tillögu og taldi henni flest til ágætis. Mér heyrðist ekki betur en að þetta væri einhver besta tillaga sem hér hefði lengi verið flutt en samt ætlaði hann sér að greiða atkvæði á móti henni. Það þótti mér heldur slakur endir á góðum málflutningi og hefði heldur kosið að hann hefði botnað setninguna á annan veg. En hann verður auðvitað að ráða sínu atkvæði eins og menn gera hér í þinginu og ekkert meira hægt að segja um það.
    Á þessu þskj. er síðan önnur brtt. sem lýtur að GATT-samningunum. Það hefur verið um það deilt hér að hve miklu leyti unnt sé að beita heimildum þessa frv. vegna Úrúgvæ-lotu GATT-samninganna ef og þegar sá samningur tekur gildi hér á landi. Og til þess að taka af öll tvímæli um það að frv. eigi við þessa nýgerðu GATT-samninga hef ég talið rétt að flytja þá tillögu sem hér um ræðir þar sem því er endanlega slegið föstu.
    Vissulega hefur það sjónarmið heyrst að eðlilegra sé að bíða eftir því að GATT-samningurinn verði lögfestur á Alþingi og að þá komi þessi hlið málsins til umræðu og endanlegrar afgreiðslu hér. Ég er þessu ekki samþykkur. Ég tel að það sé of seint að bíða eftir því. Ég tel að ákvæði um tollameðferð þurfi að liggja fyrir með margra mánaða fyrirvara áður en GATT-samningurinn tekur gildi og að það væri mjög óheppilegt ef af einhverri ástæðu kæmi upp það ástand eftir að GATT-samningurinn hefði tekið gildi að lagaákvæði um það efni væru ekki nægilega ljós. Þá mundi sagan sem nú er að gerast og hefur verið að gerast í vetur endurtaka sig og það væri ekki aðeins illt til afspurnar fyrir löggjafann og mundi vafalaust valda erfiðleikum innan stjórnarsamstarfsins, þó að ég gráti það nú kannski þurrum tárum, en það mundi valda hagsmunaaðilum í landbúnaði margvíslegum óþægindum og gæti skapað réttaróvissu sem miklu betra er að vera laus við. Af þessari ástæðu er þessi tillaga flutt.