Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 16:19:01 (5736)


[16:19]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það er fordæmi í meðferð EES-málsins að farin sé sú leið sem hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, og hans félagar leggja til. Það var að vísu nýmæli að svo sé kveðið á um í EES-samningnum en það fordæmi hefur verið skapað og að því leyti til er ekkert óeðlilegt að fara þá leið sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson leggur til.
    Að fella þá brtt. sem hv. þm. bera fram er yfirlýsing um að Alþingi ætlist ekki til að frv. sé skilið þeim skilningi sem segir í áliti 1. minni hluta. Það er skýlaus yfirlýsing Alþingis að sá meiri hluti gildi ekki. Ég lít á þessa álitsgerð Markúsar Sigurbjörnssonar sem drengilega tilraun eða tilraun hjá manni fullum meðaumkunar til að skera hv. 3. þm. Austurl. niður úr snöru sem hann var búinn að koma sér í. Það tókst auðvitað ekki. Hv. þm. Egill Jónsson --- og hvar er hann nú? --- var búinn að fyrirfara sér pólitískt í meðferð sinni á þessu máli. Það er aumlegri niðurlæging heldur en ég hef orðið vitni að hjá nokkrum þingmanni á Alþingi þann tíma sem ég hef setið hér. En tillaga Ólafs Þ. Þórðarsonar og félaga er fullkomlega eðlileg.