Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 16:21:17 (5737)


[16:21]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála því að tillagan sé eðlileg og nú er ég fyrst og fremst að tala út frá tæknilegu sjónarmiði. Það er fyrst og fremst það sem vakir fyrir mér hvort slík tillaga sé eðlileg og hvort ástæða sé til að ýta undir fordæmi af þessu tagi. Nú vorum við hv. 1. þm. Norðurl. v. bæði andstæðingar EES-samningsins og kannski ekki mjög hrifin af ýmsu því sem í þeim samningi var að finna. En það er fleira í þessu máli og hér liggur fyrir þinginu breytingartillaga frá Ragnari Arnalds og fleiri vegna þess hversu misjafnlega menn túlka breytingartillögurnar sem hér liggja fyrir. M.a. er að finna ákveðna túlkun í nefndaráliti Egils Jónssonar og fleiri sem við erum ekki sátt við og spurningin er: Eigum við að vera að lögfesta þá túlkun? Hér erum við einmitt að tala um það hvort það megi verðjafna þar sem um samsettar vörur er að ræða og innlent hráefni á ekki í hlut, þ.e. hráefni sem ekki er framleitt hér á landi. Það kunna því að vera ýmiss konar vafamál á ferð í þessu nál.