Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 16:55:08 (5744)


[16:55]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að koma ekki svo mikið aftur í ræðustóllinn þannig að ég ætla

að byrja á því að þakka hér málefnalegar umræður. Það hefur verið farið nokkuð efnislega í þessi mál, sérstaklega af tveimur síðustu ræðumönnum og það gefur mér að sjálfsögðu tilefni til þess að skýra það sem eftir er leitað í þeim efnum.
    Það er þá fyrst út af því sem kom fram í ræðu hv. 18. þm. Reykv., Kristínar Ástgeirsdóttur, um tillöguflutning hv. þm. Ragnars Arnalds. Ég vil þá fyrst vekja athygli á því að þessi texti sem hér er gert ráð fyrir að breyta var óbreyttur allan tímann frá því að fyrstu drög komu fram í landbn. Það komu aldrei fram nokkrar minnstu ábendingar um skilning landbúnaðarnefndarmanna á þessum texta og þessi texti breyttist ekki í síðustu umferð sem menn hafa verið að reyna að gera hér tortryggilegt.
    Í öðru lagi vil ég líka minna á það að þessi texti mundi ekki hafa áhrif á viðmiðunarreglurnar. Innflutningsmálin sem hv. þm. vitnaði sérstaklega til væru þá tilkomnar vegna ákvæðanna um innflutningsreglurnar. Þar af leiðandi ef það væri niðurstaðan sem kom hér fram í fyrirspurn þingmannsins og ég mun víkja að síðar að einvörðungu ætti að miða þetta við innlendar vörur þá leysti þessi lagatexti ekki vandann. Það yrði þá að leysa vandann á grundvelli þeirra viðmiðana sem settar eru um ákvarðanir varðandi innflutningsreglurnar. Þó að tillögu Ragnars Arnalds yrði breytt þá hefði það engin áhrif ef takmarkanirnar væru á annað borð fyrir hendi að því er varðar innflutningsreglurnar. Þetta vil ég að komi hér fram. Og síðan vil ég líka mega benda á það að þar sem fjallað er um hvernig innanlandsverð skuli ákveðið, þá er tilgreint í 1.3 að þar eigi í þriðja lið að vera í samræmi við reglur 6. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, þannig að það verður þá að hafa þá grein í huga þegar um þetta er fjallað.
    Ég vil sérstaklega taka fram í þessu sambandi að við slíkar aðstæður verður auðvitað að breyta reglum um hið innlenda viðmiðunarverð með þeim hætti að miða við síðastgildandi verð ef varan er almennt ekki á markaði, þá hlýtur að verða að miða við hið síðastgildandi verð. Reglunni um viðmiðunarverðið verður að beita til samræmis við þá almennu reglu og nú bið ég hv. þm. að taka sérstaklega eftir, að með verðjöfnuninni er verið að jafna samkeppnisstöðu innfluttra vara og innlendra vara. Þeirra landbúnaðarvara sem tilgreindar eru í viðaukum og tilheyra að sjálfsögðu okkar íslenska blómaríki, flóru Íslands, sem fellur inn í framleiðsluvörur landbúnaðarins. Þetta er grundvallaratriði í þessum efnum. Ég skil alveg ábendingu þingmannsins eins og þetta liggur fyrir en í gegnum þessi mál hef ég farið mjög ítarlega í þessari umræðu og það er alveg ljóst að það verður að vinna þessi mál með þeim hætti að finna viðmiðunarverðið í þessu tilviki eftir síðast gildandi verði og þá er vandinn leystur einmitt á grundvelli 6. gr. laga um verðjöfnunargjöld.
    Þá skal ég aðeins víkja hér að fyrirspurnum hv. 2. þm. Suðurl. Hann spyr um það, sem ég veit að jafnreyndum þingmanni og honum er náttúrlega fullkomlega ljóst, að það er ekkert sólarlagsákvæði í þessu frv. Það er ekkert tilgreint að einhver hluti þessara laga eða þau öll eigi að falla úr gildi á tilteknum tíma. Lögin gilda náttúrlega þar til Alþingi Íslendinga breytir þeim næst og auðvitað getur ríkisstjórn haft sínar meiningar um það hvenær þeim kann að verða breytt en ég bara undirstrika það að það er verksvið Alþingis að breyta þessum lögum og það eru ekki nein bráðabirgðaákvæði í þessum tillögum sem takmarka gildi þessara brtt. ef að lögum verða. Þetta held ég að okkur sé nú alveg fullkomlega ljóst. Og ég tek undir það sem kom hér fram í ræðu hv. 2. þm. Suðurl., og var skýrlega fram sett af hans hálfu, að í viðbótarnefndarálitinu sem hér liggur fyrir er sérstaklega tekið fram að fari svo að ekki sé búið að breyta lögunum þá nær þetta auðvitað til GATT-viðskipta, eins og ég er líklega búinn að segja 100 sinnum í þessari umræðu, eins og annarra þeirra samninga sem við erum bundnir af. Þetta held ég að sé algerlega ljóst.
    Hv. þm. talar um það að í okkar brtt. felist þrengingar á verðjöfnunargjöldum. Verðjöfnunargjöld eru skilgreind í þessu frv. og ég held að það sé alveg ljóst hvað við er átt í sambandi við verðjöfnunargjöld. Það er reynar tekið fram í fleiri lögum. Hins vegar eru þær hindranir, sem felast í þeim áformum sem uppi eru í sambandi við væntanlegt GATT sem við erum ekki orðnir aðilar að, það eru ekki verðjöfnunargjöld í þeirri merkingu sem við notum þar um. Það eru breytilegir tollar og það er einmitt af þeirri ástæðu sem við höfum verið í erfiðleikum í landbn. að finna reiknireglur við slíkar aðstæður. Og eins og ég hef margoft tekið fram í þessari umræðu, og tekið er fram í nefndaráliti 1. minni hluta væri trúlega betri kostur að láta vinna saman tolla og verðjöfnunargjöld. Þá væri þessi gáta leyst. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma sérstaklega til athugunar við frekari umræðu þessara mála.
    Ég held að ég sé þá búinn að fara sérstaklega yfir þessi efnisatriði nema að því sem lýtur að spurningu þingmannsins í sambandi við innflutningsmál gróðurhúsamanna. Ég vil taka það sérstaklega fram að þann fyrirvara hlýtur að vera sjálfsagt að gera. Þegar fjallað er um það að varan sé framleidd hér á landi verður auðvitað að skýra með þeim hætti að varan sé að jafnaði framleidd hér á landi. Það gengur auðvitað ekki að miða við svo þröng mörk að aðeins sé unnt að leggja á verðjöfnunargjöld nákvæmlega á þeim tíma þegar innlend framleiðsla af vörunni er í sölu. Það tekur að sjálfsögðu sinn tíma að framleiða vöruna. Það er líka alkunna að íslensk landbúnaðarframleiðsla, sérstaklega í hinum grænu vörum, er með þeim hætti að þar er ekki um stöðugt framboð að ræða. Þar getur orðið hlé í nokkra daga eða vikur. Það væri ekki í samræmi við það markmið laganna að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra vara ef stöðugt væri verið að rokka til með þessi gjöld vegna þess eins að t.d. íslenskar gúrkur eru ekki til einmitt þá vikuna.
    Það mætti tilgreina fleiri dæmi, t.d. afskorin blóm. Það er augljóst að mismunandi tegundir þeirra eru í þeirri samkeppni og ódýr innflutt blóm eru í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Séu þannig

ekki til íslenskar nellikkur á ákvörðunartíma heldur bara rósir er ljóst hvernig fer um samkeppnisstöðu innlendra rósa. Það er auðvitað grundvallaratriði í allri þessari umræðu að vinna þessi verk með þeim hætti að ekki raski samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu.
    Ég hef þá farið yfir þessi mál og þarf svo sem ekki að vera með miklar málalengingar. Þingmaðurinn spurði um það hvort ekki hefði verið mótmælt þeirri framsetningu sem kom fram í nefndaráliti 2. minni hluta um að í raun væri frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum frá árinu 1992. Þetta gerði ég í minni ræðu við 2. umr. og gerði það með mjög skýrum hætti eftir því sem ég hafði mátt og getu til þannig að afstaða mín hefur verið alveg ljós að þessu leyti og ég á reyndar von á því að það hafi fleiri alþingismenn gert eða ég hef enga ástæðu til að ætla annað. Hins vegar ef það liggur nú fyrir að GATT-tilboð ríkisstjórnarinnar hefur verið samþykkt eins og landbrh. hefur tilgreint þá ætti þetta ekki að verða okkur lengur að fótakefli því að eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Suðurl. þá voru tilgreindar aðeins örfáar vörutegundir sem við ættum að hafa heimildir til að verðjafna fyrir, en GATT-tilboð ríkisstjórnarinnar er meira að segja gagnvart mörgum fleiri vörutegundum en eru á viðaukum I og II. Þó að hér hafi verið ógætilega talað eins og ég hef áður getið um þá sýnist mér að málið sé að þessu leyti í miklu betri stöðu en ætla mætti.
    Ég kann nú ekki að meta og mér finnst það satt að segja tæpast samboðið virðingu þessa hv. þm. að vera að teygja þetta yfir á tillögu Ólafs Þ. Þórðarsonar sem fjallar ekkert um nefndarálit 2. minni hluta. Það væri þá nær að hafa tillöguna þannig að það skyldi enginn taka mark á 2. minni hluta ef það er einhver sérstök meining með þessu. Ég hef farið áður yfir það mál og sé ekki sérstaka ástæðu til þess að gera það ítarlega auk þess sem hv. 18. þm. Reykv. hefur gert það skilmerkilega.
    Ég held að ég hafi þá gefið skýringar á þessum sérstöku atriðum sem vissulega var þörf að skýra nánar og ég held að það sé nú nokkuð ljóst að það þurfi að vaka yfir þessum viðmiðunarreglum og því formi sem verið er að setja hér upp, það er alveg nýtt. Auðvitað hlýtur að koma ýmislegt fram þegar farið verður að vinna eftir því, t.d. á grundvelli þeirrar reglugerðar sem sett verður um þessi lög að lokinni þessari afgreiðslu. Við erum hér að færa okkur inn á nýjar leiðir og þreifa eftir vinnubrögðum sem við verðum þá að fylgja. Og ég held að þessi gríðarlega mikla umræða og út af fyrir sig nákvæma skoðun á málinu þótt umræðan hafi ekki alltaf verið sérstaklega frjó skilji að þessu leyti mikið eftir sig og skili miklum ágangri þegar menn fjalla um þessi mál á grundvelli nýrrar reynslu.