Ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:17:27 (5776)


[19:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem aðallega til að þakka hv. flm. fyrir það að vekja máls á þessu. Hann hefur raunar áður vakið máls á stöðu garðyrkjubænda með utandagskrárumræðu og fyrirspurnum. Ég tel mjög nauðsynlegt að skoða þetta mál með það að markmiði að íslensk garðyrkja geti haft viðunandi samkeppnisstöðu. Það er ekki hvað síst nauðsynlegt eftir að opnað hefur verið fyrir innflutning nokkurra tegunda blóma og grænmetis með EES-samningnum. Það er því miður að koma í ljós að menn hafa ekki verið nógu vakandi fyrir því hvað þetta mundi hafa í för með sér, jafnvel ekki garðyrkjubændurnir sjálfir, en það er

alveg greinilegt að staða þeirra hefur versnað mjög eftir að opnað var fyrir þennan innflutning. Ég vil ekki trúa því að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki gera það sem í hennar valdi stendur til þess að bæta samkeppnisstöðu þessarar greinar. Það hefur raunar þegar verið gert nokkuð í því þar sem hér var nýlega lagt fram frv. um að lækka tolla eða gjöld á nokkrum þeirra rekstrarvara sem garðyrkjubændur þurfa að nota, en það er engan veginn nægilegt og þarf að gera fleira.
    Það hefur oft verið nefnt að orkan sem garðyrkjubændur þurfa að nota mikið af er á allt of háu verði til þess að þeir geti staðist samkeppni erlendis frá og er mjög nauðsynlegt að vinna að því að þeir geti vegna orkukaupa framleitt sína vöru á samkeppnisverði. Ég veit ekki alveg hvernig væri hægt að vinna að því öðruvísi en með því að lækka orkuverðið. Það hefur ítrekað verið nefnt í umræðum um orkumál á hinu háa Alþingi. Það hefur gengið allt of hægt og það finnst manni í raun og veru furðulegt á meðan við erum með alla þá orku sem rennur ónotuð til sjávar því nóg er framleitt af henni, það vantar ekki.
    Ég ætla ekki að leggja mikið til þessara mála annað en ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og þakka hv. flm. fyrir það frumkvæði. Ég tel að það þurfi að skoða þessi mál með opnum huga því að hæstv. ríkisstjórn er opin fyrir því að menn hafi jafna samkeppnisstöðu, ekki vil ég trúa öðru. Það er nauðsynlegt að vinna að því að þessi grein sé samkeppnisfær ef á að vera opinn innflutningur á þessum vörum sem ég hefði raunar talið að þyrfti ekki að vera í þeim mæli sem er.
    En við stöndum frammi fyrir því að það er búið að opna og þá verður kannski erfiðara að loka aftur og þá verður að grípa til ráðstafana til þess að aðstoða garðyrkjuna svo þessi atvinnugrein, sem gæti verið vaxandi, lognist ekki út af.