Lífeyrissjóður sjómanna

124. fundur
Fimmtudaginn 07. apríl 1994, kl. 12:14:29 (5914)


[12:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna. Frv. er samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna.
    Um nokkurn tíma hefur stjórn sjóðsins verið þeirrar skoðunar að óeðlilegt væri að sérstök lög giltu um sjóðinn, eðlilegra væri að hann starfaði á grundvelli reglugerðar eins og flestir lífeyrissjóðir gera. Undir þessi sjónarmið hefur verið tekið, m.a hér á hinu háa Alþingi. Lögum sjóðsins var síðast breytt með lögum nr. 44/1992 og í framhaldi af þeirri lagasetningu óskaði stjórn sjóðsins eftir áliti lagadeildar á því hvort rétt væri að fella niður lög um sjóðinn og taka upp reglugerð í staðinn. Byggðist sú ósk m.a. á athugasemdum sem fram komu á Alþingi við meðferð lagafrumvarpsins um sjóðinn.
    Í framhaldi af áliti lagadeildarinnar samþykkti stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna að stefna að því að felld yrðu úr gildi núgildandi lög sjóðsins en sett yrðu í staðinn stutt lög og síðan reglugerð í þeim tilgangi að auðvelda nauðsynlegar breytingar á reglum sjóðsins án atbeina Alþingis. Samhliða þessum breytingum yrðu reglur sjóðsins endurskoðaðar í heild, sérstaklega í ljósi fjárhagsstöðu hans.
    Í þessu frv. sem hér er til umræðu um Lífeyrissjóð sjómanna eru þau ákvæði sem rétt þykir að bundin séu í lögum en aðrar reglur um starfsemi sjóðsins verða síðan settar í reglugerð.
    Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að rekja hér helstu tillögur í frv. Í 2. gr. er gert ráð fyrir undanþágu frá meginreglu þess efnis að allir sjómenn sem ráðnir eru á íslensk skip skuli vera sjóðfélagar. Þar eru annars vegar tilteknir yfirmenn á ríkisreknum skipum og hins vegar er sjómönnum sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum heimilt að vera utan við sjóðinn, enda fullnægi þeir tryggingaskyldu sinni með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi byggðarlags.
    Þá er í greininni nýmæli sem lýtur að því að lagt er til að stjórn sjóðsins sé heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum sem starfa á erlendum skipum að greiða iðgjöld til sjóðsins.
    Í 3. gr. er fjallað um skyldu launagreiðenda til þess að standa skil á iðgjöldum. Það er nýmæli í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. þar sem sjóðnum er veitt bein uppboðsheimild en ástæður fyrir þessari breytingu eru raktar í athugasemdum með frv. Það skal tekið fram að Tryggingastofnun ríkisins sá um rekstur Lífeyrissjóðs sjómanna samkvæmt lögum sjóðsins þangað til í lok sl. árs og gat stofnunin fyrir hönd sjóðsins krafist nauðungarsölu á skipum á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, sem eru nr. 90/1991. Í ársbyrjun 1994 flutti sjóðurinn starfsemi sína frá Tryggingastofnun og því er nauðsynlegt að í lög sjóðsins verði sett bein heimild til að krefjast nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.
    Í 5. gr. er sett ákvæði sem kveður á um að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi og það er í hátt við það sem gerist um önnur samsvarandi lög.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til að hafa fleiri orð um þetta við 1. umr., en geri tillögu um

að málið verði sent hv. efh.- og viðskn. og fari einnig til 2. umr.