Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 11:25:05 (5989)


[11:25]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar mun á þessum tveimur aðferðum við að koma peningum eða styrkjum til ákveðins fyrir fram útvalins hóps af fólki þá vil ég minna á að það var þannig fyrir nokkrum árum að menn höfðu þetta almennt í gegnum til þess að gera lága vexti í hinu almenna lánakerfi Húsnæðisstofnunar, svo ég nefni dæmi. Það var síðan breytt úr því kerfi, mönnum fannst það ekki gott, það gæti leitt til offjárfestingar og misnotkunar og ákveðið var að fara yfir í markaðsvexti á þessu almenna íbúðarlánakerfi og taka í staðinn bæturnar eða styrkina í gegnum skattkerfið með svokölluðum vaxtabótum. Þetta hefur verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar og síðustu í tíð núv. félmrh. að hverfa frá almennri niðurgreiðslu á vöxtum yfir í skattkerfið. Nú sýnist mér menn vera að fara til baka og menn eru að fara tvær ólíkar leiðir. Það er það sem ég var að benda á af því að húsaleigubótaleiðin er önnur leið miðað við hitt. Hún er bein niðurgreiðsla og ég vakti athygli á því að það er sama hætta á misnotkun á kerfinu þar eins og menn sáu fyrir sér í hinu.