Húsaleigubætur

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 12:19:18 (5997)


[12:19]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. félmrh. áðan að það væri ekki meiningin að útiloka námsmenn frá því að eiga rétt á húsaleigubótum. Mér fannst að hæstv. ráðherra vísaði því til nefndarinnar að skoða hvernig því væri fyrir komið þessari grein en 5. gr. hlýtur að eiga við þetta. Ég velti því aðeins fyrir mér vegna þess að í 5. gr. segir að þeir sem eigi rétt á húsaleigubótum skuli eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Ef það væri tekið út að þeir ættu þar ekki lögheimili --- við skulum tala hér um Reykjavík, hefði Reykjavík sem sveitarfélag nokkurn áhuga á því að vera að greiða t.d. námsmönnum húsaleigubætur? Ég get ekki séð það fyrir mér ef þeir námsmenn greiddu engar tekjur til sveitarfélagsins og ætluðu sér aftur að flytja í burtu og þess vegna þyrfti e.t.v. að vera þarna inni það ákvæði að sveitarfélagið ætti endurkröfurétt á lögheimilissveitarfélag viðkomandi. Það er hugsanlegt að reyna að koma því með því móti fyrir. En eins og hæstv. ráðherra sagði áðan er það nokkuð í lausu lofti hvort sveitarfélögin muni yfirleitt ákveða að greiða húsaleigubætur. Þau geta nánast ákveðið það sjálf. Og þá sýnist mér því miður fara dálítið glansinn af þessu frv. ef það er í raun og veru ekki verið að ákveða það hér á Alþingi að það eigi að greiða húsaleigubætur til þeirra sem samkvæmt sínum tekjum ættu í raun og veru rétt á því samkvæmt þessu frv. Þá geta sveitarfélögin, sem eru mjög misjöfn að stærð og gerð, ákveðið hvort þau ætla sér að greiða húsaleigubætur. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Þarf þá ekki jafnframt að vera inni eitthvað í þessum lögum sem gerir ákveðna kröfu á sveitarfélögin að standa að þessu?