Málefni aldraðra

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 13:58:18 (6021)


[13:58]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Málflutningur stjórnarandstöðunnar í þessu máli vekur óneitanlega mikla furðu. Hér er fram komið samhljóða nefndarálit frá allri heilbr.- og trn. að fengnum tillögum og umsögn félmn. að því er mér er tjáð og fram kom við 2. umr. málsins. Ég sé ekki betur heldur en stjórnarandstæðingar í heilbr.- og trn. sem sjálfir flytja þessar breytingartillögur og eru aðilar að því nefndaráliti sem öll nefndin flytur, séu hér að sitja hjá við sínar eigin tillögur. Það eru ákveðin nýmæli hér í störfum Alþingis.
    Eins og fram kom í yfirlýsingu forseta um þetta efni, þá er hér alls ekki verið að fara út á neitt grátt svæði í þessum efnum. Hér er verið að gera breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem leiða beinlínis af hinu atriðinu í frv. Þetta er þess vegna eðlileg málsmeðferð. Hún er alþekkt hér á Alþingi og það kemur á óvart að síðasti hv. ræðumaður sem trekk í trekk hafði forgöngu um gerð bandorma á tímum fyrri ríkisstjórna er orðinn hissa á slíkri málsmeðferð. Ég vek athygli á þeirri ósamkvæmni sem fram kemur í atkvæðagreiðslu stjórnarandstæðinga í nefndinni miðað við það nefndarálit og þær tillögur sem þeir hafa sjálfir flutt, en styð að sjálfsögðu þessa tillögu.