Málefni aldraðra

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 14:05:46 (6026)


[14:05]
     Geir H. Haarde :

    Virðulegi forseti. Eftir þessar umræður stendur það að hv. stjórnarandstæðingar í heilbr.- og trn. skila nefndaráliti með stjórnarliðunum. Nefndarálitið er frá heilbr.- og trn. allri. Sama er að segja um brtt. ( FI: Með fyrirvara.) Og það er ekki til neitt, hv. þm. Finnur Ingólfsson, sem heitir að segja að brtt. séu að vissu leyti fluttar af heilbr.- og trn. Þær eru fluttar af nefndinni. Það liggur alveg ljóst fyrir á þessu þskj. Og það er hámark tvískinnungsins að flytja brtt. sem aðili að nefnd og sitja síðan hjá þegar þær koma til afgreiðslu. Það er hámark tvískinnungsins.
    Ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um þetta efni, virðulegi forseti. Ég bendi á að mér varð á mismæli hér áðan, ég bið hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur að fyrirgefa það, ekki vildi ég líkja henni við Pál Pétursson í meðferð bandorma hér á árum áður. En það eru fordæmi fyrir því, og þau eru auðvitað ekki til fyrirmyndar, að inn í bandorma sé bætt við 3. umr. efnisatriðum úr ólíkri átt eða úr öðrum lögum og það er ekki til fyrirmyndar. Um slíkt er hins vegar ekki að ræða í þessu efni. Ég greiði þessari tillögu atkvæði, virðulegi forseti.