Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:02:39 (6036)


[15:02]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Hér er til meðferðar till. til þál. um fullgildingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á bókun 47 og tilteknum viðaukum við EES-samninginn. Eins og fram hefur komið er hér verið að uppfylla samningsskyldu okkar samkvæmt EES-samningnum og við erum að veita heimild til þess að þennan viðbótarpakka við þetta mál megi fullgilda fyrir Íslands hönd. Öll gögn málsins hafa verið lögð fram hér á Alþingi og einnig hefur komið fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns réttilega að í vetur hefur utanrmn. unnið að því að kynna sér efnisþætti þessa máls á fjölmörgum fundum og kallað fyrir sig sérfræðinga, eins og hann rakti og ég þarf ekki að endurtaka, um þetta mál.
    Það sem sérstaklega vakti fyrir nefndinni var það að fá upplýsingar um efnisatriðin og síðan einnig mat sérfræðinga á því hvað í þessum atriðum krefðist atbeina Alþingis með öðrum hætti en kemur fram í þessari þáltill., þ.e. varðandi lagasetningu eða breytingu á lögum til að Ísland geti staðið við þennan samning sem með þessari tillögu er veitt heimild til að fullgilda. Hv. síðasti ræðumaður greindi réttilega frá því hvað fram hefur komið um það efni og það er í stuttu máli að í mjög fáum tilvikum er nauðsynlegt að gera lagabreytingar til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar samkvæmt þessum samningi og í flestum þeim tilvikum þar sem um lagabreytingar er að ræða eru frv. þess efnis komin fram á þingi nú þegar.
    Þetta mál liggur þess vegna að því er okkur þingmenn varðar næsta skýrt fyrir og ætti ekki að vefjast fyrir okkur að veita þá heimild sem hér um ræðir. Án tillits til þess sem varðar efni málsins má segja að við höfum hinn 5. maí í fyrra tekið pólitíska ákvörðun sem byggist á því að þetta mál nái fram að ganga því eins og samþykkt var í þinginu í fyrra þá viljum við í framhaldi af gerð EES-samningsins standa þannig að málum að ef EFTA leysist upp með aðild fjögurra EFTA-ríkja að Evrópusambandinu þá getum við hafið viðræður við Evrópusambandið um tvíhliða samskipti okkar hugsanlega með tvíhliða samning við það í huga. Mér finnst því að þótt hér sé um mikilvæg efnisatriði að ræða, þá hafi hin pólitíska ákvörðun um það að veita þessu máli brautargengi verið tekin í fyrra og við stöndum nú frammi fyrir því að framkvæma þá ákvörðun.
    Einmitt með það í huga náðist mjög góð samstaða að mínu mati í utanrmn. um vinnubrögð í þessu máli og samkvæmt þeirri áætlun sem við gerðum í febrúar höfum við starfað og farið yfir málið eins og lýst hefur verið í umræðunum.

    Það kom mér svolítið á óvart að heyra þau orðaskipti sem urðu hér áðan á milli hv. þm. um hvað felst í þessum orðum á bls. 5 í greinargerð með þáltill. þar sem segir, með leyfi frú forseta:
    ,,Með reglugerð er stórfyrirtækjum gefið meira svigrúm til samráðs til að auðvelda hagræðingu við framleiðslu, nýtingu niðurstaðna úr sameiginlegum rannsóknum og við þróun og útbreiðslu tækniþekkingar.``
    Ég lít þannig á að þarna sé ekki verið að fara inn á það svið samkeppni sem menn hafa einkum beint athygli að hér á landi þegar rætt er um umsvif stórfyrirtækja, þ.e. hina fjárhagslegu starfsemi þeirra, heldur sé verið að ræða þarna um hagræði sem hlýst af því að þau geti haft samráð sín á milli um nýtingu á rannsóknum og fræðilegum athugunum og hagræðingu við framleiðslu og annað slíkt sem lýtur m.a. að því að skapa fleiri störf og að auka hagsæld með þeim hætti að framleiðslan verði ódýrari og einnig að stuðla að rannsóknum. Mér finnst gersamlega út í hött að telja að með því orðalagi sem þarna er notað sé verið að brjóta í bága við þau samkeppnislög sem samþykkt voru hér á landi á síðasta ári.
    Mér finnst það endurspegla málefnafátækt þeirra sem vilja gera þetta samstarf við Evrópuríkin sem tortryggilegast, en ég skil það svo sem að þeir sem voru andstæðir því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og stæðum að gerð þessa samnings leggi sig í framkróka um að gera samstarfið allt sem tortryggilegast en nú eins og á síðasta ári eru þau atriði sem tíunduð eru í því skyni næsta fátækleg og raunverulega að mínu mati í þessu tilviki byggð á miklum misskilningi varðandi það sem við höfum verið að ræða hér og samkeppnislögin íslensku ná til. Í þessu máli eru margir þættir en þetta held ég að menn hafi ekki staldrað við enda kom ekkert fram í störfum utanrmn. eða athugun hennar á þessum þætti málsins sem benti til að menn teldu að það þyrfti að endurskoða samkeppnislögin. Á fund nefndarinnar kom Georg Ólafsson frá Samkeppnisstofnun og fjallaði um samkeppnisreglur og það kom ekkert fram sem benti til þess að neitt af ákvæðum í þessum nýju reglum stönguðust á við nýsett samkeppnislög. Ég tel að hér hafi verið kastað upp í umræðunni einmitt dæmi sem sýnir að gagnrýni á einstaka efnisþætti í þessu máli er næsta haldlítil þegar menn reyna að gera þau tortryggileg á þennan hátt.
    Enda skildi ég það þannig hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. þar sem hann las um bifreiðar að þar væri verið að fjalla um það hvernig framleiðendur bifreiða ættu að koma fyrir sætum og öðru slíku í bílunum en að sjálfsögðu eru þetta engar reglur sem gilda um farþegana. Þetta eru reglur sem lúta að bifreiðasmíði og þjóna sama tilgangi og aðrar samræmingarreglur á þessu svæði, að menn viti að hverju þeir eiga að ganga til þess að vörurnar séu markaðshæfar á þessum stóra almenna markaði.
    Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v. að í yfirferð utanrmn. hefur komið fram að ýmislegt sem hér er um að ræða mun væntanlega auka kostnað hjá þeim aðilum sem undir þessar reglur falla að því leyti að það eru gerðar til þeirra nýjar kröfur, ekki síst varðandi öryggismál, eftirlit og gæðakröfur sem kann að kosta eitthvað að hrinda í framkvæmd. En sá kostnaður á að koma þeim hins vegar til góða sem nota tækin, kaupa vöruna, og þeir eiga að vera öruggari en ella um það að gætt sé fyllsta öryggis og gæðakröfur séu viðunandi að öllu leyti. Þetta togast á. Þetta hefur togast á og þetta togast á núorðið meira og meira í allri framleiðslustarfsemi í okkar heimshluta og á okkar viðskiptasvæðum og við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því, bæði vegna varnings sem við framleiðum og einnig vegna þess sem oft hefur verið minnst á á Alþingi, að þetta opinbera eftirlitskerfi kostar sitt.
    Ég fagna því sérstaklega í þessu samhengi að ríkisstjórnin hefur ákveðið að framkvæma á vegum ríkisins endurskoðun á kostnaði og skipulagi alls hins opinbera eftirlitskerfis. Ég held að ýmislegt af því sem við erum að fjalla um og verður fest í íslenskar reglur eftir að þessi samningur nær fram að ganga kalli einmitt á það starf á vegum íslenska ríkisins að gaumgæfilega verði hugað að því hvernig að þessu eftirliti skuli staðið og hvernig hægt er að gera það sem hagkvæmast og kostnaðarminnst fyrir okkur skattgreiðendur án þess að fórnað sé því öryggi sem eftirlitið á að tryggja. Það þótti mér svona eins og rauður þráður í gegnum margt af því sem fram hefur komið í meðferð utanrmn. á þessu máli að það er verið að færa út reglur með öryggissjónarmið og eftirlitssjónarmið í huga og þar er ástæða til þess að huga að hinni innlendu framkvæmd. Við getum hagað henni með ýmsu móti þótt við föllumst á það að veita borgurum okkar eins og borgurum annarra ríkja það öryggi sem felst í því að slíkar reglur séu settar.
    Það er eitt atriði, frú forseti, sem stóð eftir í yfirferð utanrmn. yfir þetta mikla mál og það er spurningin um flugferðir, rétt flugfélaga og aukna samkeppni á flugleiðum, bæði í millilandaflugi og innanlandsflugi. Það er mjög forvitnilegt mál og sérstaklega skiptir það flugfélag okkar Íslendinga, Flugleiðir, mjög miklu máli að sá hluti þessa samkomulags komist örugglega til framkvæmda því það veitir Flugleiðum ný tækifæri til að athafna sig á hinum evrópska markaði og er mjög mikilvægt að einn mikilvægasti þáttur í þessum viðbótarpakka lýtur einmitt að auknu frelsi í flugsamgöngum á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar höfum við sérstaklega rætt um skyldur flugfélaga til að halda uppi samgöngum til fámennra staða og höfum fengið skýringar frá samgrn. um það mál og munum ræða það væntanlega frekar í utanrmn. en þetta er eitt af þeim atriðum sem við Íslendingar þurfum að skoða sérstaklega vegna innanlandsflugs hér á landi og hvaða reglur munu gilda um það í ljósi hinna nýju reglna.
    Ég ætla ekki, frú forseti, að hafa þetta langt mál. Ég þarf þess ekki. Eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. lét getið í sinni ræðu munu jafnvel þeir sem voru á móti samþykkt EES-samningsins í fyrra sjá í gegnum fingur sér við þessa tillögu, ef ég má orða það svo, og líta á hana sem hluta af þeirri samþykkt sem við gerðum á Alþingi 5. maí sl. um framtíðarsamskipti okkar við Evrópusambandið. Ég vona, frú forseti,

að það takist gott samkomulag og afgreiðsla utanrmn. á þessu máli verði í anda þess góða samstarfs sem hefur verið um málið í utanrmn. á undanförnum mánuðum og okkur takist að ljúka þessu máli fyrir þinglok þannig að Ísland geti staðið við sínar skuldbindingar og fullgilt þessa viðbótarbókun við EES-samninginn nægilega tímanlega þannig að hann taki gildi fyrir okkur eins og aðra hinn 1. júlí nk.