Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:20:22 (6040)


[15:20]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég verð að andmæla þessum málflutningi því að mér finnst alveg furðulegt að ræða þannig um þetta mál. Þegar það var kynnt á sínum tíma var talað um að það mundi væntanlega þurfa að breyta því þegar viðbótarpakkinn kæmi til framkvæmda og ef hann kæmi til framkvæmda.

    Ég get bent á annað mál sem er enn þá skýrara en þetta sem hv. þm. nefndi og það er varðandi starfsréttindin. Menntmn. fjallaði í fyrra um það mál og gerði beinlínis breytingu á frv. frá menntmrn. sem krefst þess nú að við tökum málið aftur fyrir á þingi. Ég tel að það séu síður en svo ámælisverð vinnubrögð af hálfu Alþingis að halda þannig á þessum EES-málum að ef um einstakar nýjar tilskipanir er að ræða, þá komi það aftur fyrir þingið og það þurfi að breyta lagafrumvörpum. Ég hef frekar verið talsmaður þess í þeim þingefndum sem ég hef starfað.
    Það urðu umræður um þetta mál fyrr á þinginu í vetur varðandi einmitt almannatryggingalögin og þá var það skoðun þingmanna að það væri betra að hafa ákvæði í lögunum þrengri en rýmri þannig að framkvæmdarvaldið yrði að leggja slík mál fyrir þingið ef um efnisbreytingar væri að ræða en hefði ekki heimild til að ljúka slíkum málum með útgáfu reglugerða.
    Hér kemur hið gagnstæða fram hjá hv. þm. sem vill greinilega að þannig sé að málum staðið að þingið samþykki það víðtækar heimildir varðandi EES-löggjöfina að framkvæmdarvaldið geti síðan tekið inn í þær heimildir það sem gerist í framtíðinni. Ég er ekki sammála þessu. Ég tel að þingið eigi að standa þannig að þessum málum að hafa þessar heimildir skýrar og síðan komi það fyrir þingið hverju sinni ef um efnislegar breytingar er að ræða. Okkur greinir því á bæði um afstöðuna til EES-málsins og einnig um það hvernig að þessu máli skuli staðið á hinu háa Alþingi. Ég hef verið frekar, ef ég má segja, íhaldssamur varðandi þetta og vil að þingið komi sem mest að þessum málum og eins oft og frekast er kostur.