Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:22:21 (6041)


[15:22]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er ekki síður á móti EES-samningnum núna en ég var í fyrra. Ég tel að flest eða öll þau varnaðarorð sem ég lét falla um þann samning í umræðum í fyrra hafi sannast eða séu að sannast.
    Ég viðurkenni hins vegar ákvörðun Alþingis. Alþingi ákvað það eða meiri hlutinn þrátt fyrir stjórnarskrá og hvað sem það kostaði að við skyldum gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og þar erum við stödd. Ég sé fjötrana sem þessu fylgja, sé þær byrðar sem á okkur eru lagðar með þessu. Hv. 3. þm. Reykv. ber glaður sinn kross en ég lít á þetta sem ok sem við ættum að reyna að losa okkur undan. Mér finnst hv. 3. þm. alltaf verða allt of ákafur og er undarlegt með svo glöggan mann þegar þessi Evrópumál eru til umræðu. Hann er svo mikill baráttumaður fyrir þeim. Þetta með öryggið, jú, jú, þetta er gert í nafni öryggis. En auðvitað er þarna verið, og það veit hann alveg jafn vel og ég, að setja upp tæknilegar viðskiptahindranir öðrum þræði og stundum eru þær aðalatriðið í þessu. Það er ekki verið að vernda borgarana, það er fyrst og fremst verið að hindra aðra og loka markaðinum, það er það sem er að gerast.