Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 15:25:51 (6043)


[15:25]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Það hefur aldrei staðið á mér að viðurkenna það sem ég sé jákvætt við Evrópska efnahagssvæðið og í ræðu minni áðan tók ég einmitt sérstaklega fagnandi á móti þeim skorðum sem settar eru við mútum lyfjafyrirtækjanna til lækna.
    Varðandi þetta með öryggið. Ég hef átt bíla, bæði breska bíla, ameríska bíla og japanska og ég

leyfi mér að fullyrða að það er engu minna öryggi í bandarískum bílum en í evrópskum bílum. Það er bara beinlínis verið að setja upp þarna skilyrði til að reyna að útiloka bandaríska bíla frá evrópskum markaði. Þetta kemur öryggi ekkert við.
    Varðandi hins vegar eftirlitið, það er að vísu rétt, Vestur-Evrópa er lömuð af atvinnuleysi. Þar er atvinnuleysi á milli 10 og 20% og við erum orðnir aðilar að því evrópska atvinnuleysissvæði. En það eina sem virðist dafna almennilega er þessi endalausi eftirlitsiðnaður. Það er alltaf hægt að bæta við eftirlitið. Það dafnar ekki framleiðslan, það eykst ekki þjóðarframleiðslan, en það er alltaf hægt að bæta við nýjum og nýjum mönnum til þess að passa eitt og annað og þetta leiðir náttúrlega til ófarnaðar en þetta er eiginlega eini vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu.
    Ég vil svo að lokum geta þess að það var tekin pólitísk ákvörðun af meiri hluta Alþingis um að við gengjum inn á Evrópskt efnahagssvæði. Það var líka tekin pólitísk ákvörðun í fyrravor um að við skyldum stefna að því að breyta viðskiptahlið þessa ólukku EES-samningi í tvíhliða viðskiptasamning milli Íslands og Evrópubandalagsins og ég vona að við getum átt samleið, hv. formaður utanrmn. og ég, í því efni.