Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 16:55:19 (6050)


[16:55]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál sem hér var mælt fyrir af hæstv. starfandi utanrrh. er fyrir margra hluta sakir umræðu virði. Það sem ég vil nefna fyrst varðandi málið er sú sérkennilega staðreynd að af Íslands hálfu var ekki farið að gefa þessu máli, þessum Svalbarðasamningi, hinn minnsta gaum, svo mér sé kunnugt, fyrr en á miðju síðasta sumri eða þar um bil og er þó hér um að ræða alþjóðasamning sem tekur til landsvæðis ekki svo ýkjalangt frá Íslandi í norð-norðaustur, fjögurra dægra haf eða svo ef við tækjum trúanleg orð Landnámu, sem fyrst nefnir Svalbarða á nafn. --- Sumir halda að hugsanlega hafi þar verið átt við Jan Mayen en ekki vil ég taka af um það. Á Svalbarða er það haft fyrir satt að Íslendingar hafi fyrstir þjóða skráðar heimildir eða fært í letur heimildir um Svalbarða með því nafni. --- En þessari fornu vitneskju og heiti eyjanna sem íslenskar fornsögur geyma hefur ekki verið betur sinnt af okkur Íslendingum en svo að það virðist sem ráðamönnum hér hafi að mestu verið ókunnugt um þennan samning, a.m.k. ekki leitt hugann að því hvort það ætti að vera til álita að Ísland gerðist aðili að samningnum um Svalbarða frá 1920.
    Ég er í hópi þeirra sem vissi afskaplega takmarkað um þennan samning og þekkti lítið til Svalbarða þar til ég varð þess aðnjótandi að skreppa þangað í júnímánuði sl. Það var afar lærdómsríkt fyrir margra hluta sakir og ætla ég ekki að rekja það hér. En þá fékk ég fyrst í hendur og leit yfir þetta málsgagn sem hér liggur nú fyrir í íslenskri þýðingu og varð ljóst að það væri fyllsta ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að meta það hvort við ættum ekki að gerast aðilar að þessum samningi. Ekki af því tilefni sem síðar varð og er megindriffjöðrin af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja þetta mál nú hér fyrir þingið, þ.e. fiskveiðiþáttur málsins, heldur einfaldlega vegna samningsins, vegna þeirrar þýðingar sem hann hefur fyrir verndun Svalbarða, eyjanna sem mynda Svalbarða, sem er hið stórfenglegasta land, sem betur fer undir allstrangri vernd, sérstökum náttúruverndarákvæðum, mikill hluti eyjanna og mismunandi ákvæði sem gilda þar um einstök svæði, m.a um verndun dýrategunda sem þar eiga eitt aðalheimkynni sitt eins og hvítabjörn, einkum við austanverðar og suðaustanverðar eyjarnar á hafísnum.
    Ég er þeirrar skoðunar og var farinn að leiða hugann að því að ástæða væri til þess að taka þetta mál upp þegar íslenska utanrrn. vaknaði allt í einu af djúpum dvala að því er þetta mál snerti, eftir að Íslendingar hófu veiðar í Smugunni og leikurinn færðist svona með einhverjum hætti í norðvestur inn á Svalbarðasvæðið og menn fóru að velta fyrir sér þessum samningi og túlkun Norðmanna á honum að því er varðaði fiskverndarmálefni kringum eyjarnar.
    Ég ætla ekki að fara að hefja hér mikið mál út af þessu. Ég vil aðeins segja að ég vil meta þetta mál út frá Svalbarðasamningnum sem slíkum í fyrsta lagi og alveg sérstaklega og ég tel það alveg óbundið og óháð fiskverndar- og fiskveiðimálinu á grundvelli þeirra gerninga sem Norðmenn beittu sér fyrir, sem ráðendur eða handhafar valds á Svalbarða, þeir telja það hluta af Noregi samkvæmt lögum frá 1925, þá eigum við að skoða það með jákvæðum hætti að slást í hóp aðildarríkja að þessum sérstæða samningi frá 9. febr. 1920.
    Um hinn þátt málsins vil ég segja það, virðulegur forseti, að ég tel að við Íslendingar þurfum að skoða okkur vel um áður en við tökum stefnu á það að gerbreyta okkar siglingu í sambandi við sjávarútvegsmálefni og fiskverndarmálefni en mér sýnist að margt sé þar uppi sem þurfi að gaumgæfa og athuga og ég vil hvetja til þess að menn flýti sér þar hægt. Margt af því sem menn telja sig sjá sem hugsanlegar hagsbætur af því að slást í hóp úthafsveiðiþjóða og hefja útgerð víða um höf er ekki víst að sé gefin veiði þó sýnd sé. Við þurfum að fara yfir þetta mál með allt öðrum og víðari hætti en gert hefur verið fram að þessu og horfa þar til allra átta áður en við innsiglum breytingu á þeirri stefnu sem við höfum fylgt undir merki landhelgismála fram að þessu.