Samningur um Svalbarða

125. fundur
Föstudaginn 08. apríl 1994, kl. 17:35:31 (6058)


[17:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ekki annað hægt en að virða það við hæstv. starfandi hæstv. utanrrh. hvernig hann reynir að standa hérna í vörninni fyrir ríkisstjórnina og meira að segja halda henni saman sem er nú orðið fátítt upp á síðkastið að stjórnarliðar reyni yfir höfuð. Ég virði það við hann að hann skuli vera að reyna þetta. En þetta er nú að skýrast og í raun og veru ljóst að okkur ber ekki mikið á milli. Og ég tel engar innstæður vera fyrir þessum stóru orðum hæstv. viðskrh. í sambandi við það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði því í raun og veru sagði hann það sama og ég að mestu leyti.
    Varðandi svo annað atriði sem ég vildi skýra í framhaldi af orðum hæstv. ráðherra áðan og það er með aðild okkar að Svalbarðasamningnum og veiðiréttindin. Ég valdi orðalag mitt vandlega og sagði það, sem ég meina, að aðild okkar aflar okkur eða færir okkur ekki sjálfkrafa veiðiréttindi við Svalbarða. Ég vil undir engum kringumstæðum skiljast þannig að ég sé að útiloka að hún geri það. Það er reyndar mín skoðun að hún styrki mjög okkar stöðu til að fá þarna réttindi þegar til frambúðar sækir. Ég minni á það sem ég sagði til að mynda um stofna eins og rækjuna á þessu svæði í því sambandi. Um þorskinn gegnir að nokkru leyti öðru máli þar sem sú tegund er þegar kvótasett en þá minni ég á að það er samhengi á milli veiðimöguleikanna í Smugunni og á öðrum svæðum sem aðliggjandi eru og þær þjóðir sem á annað borð yrðu komnar með kvóta í slíkri tegund, hvort sem það væri vegna aflareynslu á úthafinu eða annars staðar, fengju væntanlega sömuleiðis svigrúm til að taka þann kvóta almennt talað á þessu hafsvæði, þess vegna innan Svalbarðasvæðisins eins og annars staðar.
    En þetta er það orðalag sem ég vil nota í þessu sambandi. Það er út af fyrir sig ljóst, það er rétt að menn hafi það á hreinu, að aðildin færir okkur ekki sem slík sjálfkrafa réttindi en það eru verulegar líkur á því að hún styrki stöðu okkar til þess að ná þeim.