Fákeppni og samkeppnishindranir

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:14:32 (6087)

[15:14]
     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fsp. fyrir hæstv. viðskrh. um samkeppnislögin nýsettu, þ.e. þau sem afgreidd voru hér á þingi á sl. vetri. Eitt meginmarkmið þeirra laga var, eins og fram kemur í markmiðs- og gildissviðskafla laganna, að vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og jafnframt eiga lögin og Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sem fer með framkvæmd þeirra að leitast við að auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Allt er þetta gert til þess að tryggja að samkeppni sé fyrir hendi þar sem henni er ætlað að sjá um að verðlag og viðskiptahættir séu með skikkanlegu móti.
    Nú hefur lengi leikið á því nokkur grunur að á Íslandi, sem ekki má telja ólíklegt miðað við aðstæður, séu mikil brögð að dulinni einokun eða fákeppni markaðsráðandi fyrirtækja og fara ýmsar sögur af því. Það er þess vegna fróðlegt að fá það upp gefið nú þegar lögin hafa gilt um eins árs skeið eða liðlega það --- reyndar var það rétt um eitt ár sem liðið var frá gildistöku laganna þegar ég lagði fram þessa fsp. en það hefur dregist nokkuð af ýmsum ástæðum að svara henni --- hvernig á þessi nýju lagaákvæði hefur reynt eða hvort á þau hefur reynt.
    Nú er það svo að bæði geta einstakir aðilar sem sjá ástæðu til sent erindi til Samkeppnisstofnunar eða samkeppnisráðs ef þeir telja ástæðu til að ætla að um væntanlegt eða meint brot á þessum lögum sé að ræða, t.d. með fyrirhugaðri sameiningu fyrirtækja, upptöku eða uppkaupum eða yfirtöku eins fyrirtækis af öðru. Eins getur Samkeppnisráð sjálft tekið upp slík mál og því ber reyndar að gera það samanber viðeigandi greinar og kafla í lögunum. Ég taldi þess vegna rétt og tímabært að leggja fram fsp. til hæstv. viðskrh. um það hversu mörg erindi hafi borist Samkeppnisstofnun eða samkeppnisráði sem eiga rót sína að rekja til nýrra ákvæða í samkeppnislögum sem koma hér við sögu, sporna eiga við fákeppni og samkeppnishindrunum og hvaða afgreiðslu slík mál hafa þá hlotið. Eins væri æskilegt að hæstv. ráðherra upplýsti, þó það sé reyndar ekki sérstaklega um það spurt, hvort stofnunin sjálf hafi séð ástæðu til að taka upp mál eða taka mál til meðhöndlunar af sama toga.