Fákeppni og samkeppnishindranir

127. fundur
Mánudaginn 11. apríl 1994, kl. 15:17:55 (6088)


[15:17]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Frú forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er fsp. orðin nokkuð gömul og svarið sömuleiðis þannig að sumt af því sem í svarinu er sagt að sé í undirbúningi og muni framkvæmt á næstu dögum eða jafnvel vikum er þegar komið til framkvæmda.
    Frá því að samkeppnislögin tóku gildi 1. mars á liðnu ári hafa samkeppnisyfirvöldum borist 84 erindi sem tengjast samkeppnishindrunum. Á sama tíma hafa samkeppnisyfirvöldum borist 35 erindi sem tengjast eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum. Samkeppnislögin taka á samkeppnishindrunum á þrenns konar hátt:
    Í fyrsta lagi eru tilteknar samkeppnishömlur bannaðar, í öðru lagi er haft eftirlit með markaðsyfirráðum og í þriðja lagi eru ákvæði í lögunum sem fela í sér að hægt er að hafa afskipti af samkeppnishindrunum sem viðgangast í einu eða öðru formi í skjóli opinberrar verndar.
    Alls hafa 12 mál verið tekin til meðferðar sem lúta að bannákvæðum í samkeppnislögum. Fjögur þeirra hafa þegar verið afgreidd, eitt verður afgreitt innan skamms og hin eru á lokastigi. Nokkur dæmi:
    Myndbandaleigur hafa kvartað yfir verðsamráði og markaðsþvingunum. VISA-Ísland hefur kvartað yfir samráði íslenskra ferðaskrifstofa og Flugleiða um innheimtu á svokölluðu forfallagjaldi. Þar töldu samkeppnisyfirvöld að samráð ferðaskrifstofa bryti í bága við bannákvæði samkeppnislaga. Ýmis samtök sjálfstætt starfandi sérfræðinga hafa leitað eftir undanþágu frá banni við að gefa út sameiginlega verðtaxta. Má þar nefna Lögmannafélagið, Félag ráðgjafarverkfræðinga, Arkitektafélag Íslands og Tannlæknafélag Íslands. Þessar beiðnir hafa nú verið teknar eða er verið að taka til afgreiðslu.
    Þá hafa samkeppnisyfirvöldum borist 38 mál sem flokkast undir þann kafla laganna sem fjallar um eftirlit með samkeppnishömlum. Alls er 17 málum lokið og þremur var rétt að ljúka þegar þessi texti var saminn. Nokkur dæmi:
    Stoð hf. kvartaði yfir því að fá ekki keypta tiltekna hluti í stoðtæki sem Össur hf. framleiðir til eigin nota. Samkeppnisyfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að sölusynjun Össurar hf. væri ekki brot á samkeppnislögum. Neytendasamtökin kvörtuðu yfir útreikningi dráttarvaxta hjá greiðslukortafyrirtækinu Kreditkort. Kvartað var yfir því að dráttarvextir væru reiknaðir aftur í tímann þannig að viðskiptavinir sem ekki greiddu á gjalddaga voru krafðir um dráttarvexti sem voru reiknaðir frá og með lokadegi úttektartímabils en ekki frá og með gjalddaga eins og almennt er gert. Samkeppnisyfirvöld töldu að aðferð Kreditkorta hf. við útreikning dráttarvaxta væri ekki í samræmi við góða viðskiptahætti og fyrirtækið hefur nú breytt vaxtaútreikningi.

    Þá hefur samkeppnisyfirvöldum borist bréf frá ASÍ, BSRB og Neytendasamtökum vegna útgáfu debetkorta. Má búast við niðurstöðu í því máli innan skamms. Verslun sem selur hljómdiska kvartaði yfir því að stór heildsali hefði synjað henni um að fá keypta hljómdiska. Úrskurður í því máli er fallinn.
    Samkeppnishindranir í skjóli opinberrar verndar, en undir það falla 34 mál. Þegar þetta er skrifað var búið að afgreiða 15 þeirra en 19 bíða úrlausnar og þar af 11 komin á lokastig.
    Sem dæmi um mál af slíku tagi má nefna athugasemd sem Félag ísl. iðnrekenda gerði vegna rekstrar plastverksmiðju Reykjalundar. Félag ísl. iðnrekenda fór fram á að kannað yrði hvort opinber framlög til rekstrar sjúkrastofnana Reykjalundar, vinnuheimilis SÍBS, kynnu að vera notuð til að greiða niður framleiðslu á fjárfestingu í plastverksmiðju. Þá hefur Verslunarráð Íslands kvartað undan því að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma greiddu niður útfararþjónustu með kirkjugarðsgjöldum. Mönnum er væntanlega í fersku minni niðurstaðan af því máli. Þá hefur Verktakasamband Íslands kvartað yfir því að vinnuflokkar Vegagerðar ríkisins gerðu tilboð í verk sem Vegagerðin byði út. Samkeppnisyfirvöld samþykktu að beina þeim tilmælum til Vegagerðar ríkisins að skilja fjárhagslega á milli rekstrar þeirra vinnuflokka Vegagerðarinnar sem ætlað er að bjóða í verk eða framkvæmdir, sem Vegagerð ríkisins eða aðrir bjóða út, og annarra þátta í rekstri Vegagerðarinnar.
    Þá hefur fyrirtækið Yleining kvartað yfir því að fyrirtækinu væri mismunað í framkvæmd á opinberu byggingareftirliti. Samkeppnisyfirvöld hafa vakið athygli umhvrn. á málinu. Þá hefur Félag ísl. stórkaupmanna kvartað yfir því að einn félagsmanna, grænmetisheildsali, fái ekki keypta sveppi frá stærsta og til skamms tíma eina sveppaframleiðanda landsins. Samkeppnisyfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að samkeppnishindranir á sveppamarkaðinum eigi rætur að rekja til búvörulaga og framkvæmda á þeim og munu fjalla um kvörtunina á grundvelli þess.
    Virðulegi forseti. Í þessum skrifaða texta sem ég hef hér undir höndum eru fjölmörg önnur dæmi rakin. Því miður vinnst mér ekki tími til að fara ítarlega í þá sauma eins og ástæða hefði þó verið til og vildi því gjarnan geta gert langt mál stutt með því að afhenda fyrirspyrjanda textann þannig að hann geti lesið sér nánar til.