Útflutningur hrossa

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:30:46 (6167)


[16:30]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hygg að skýringarinnar á því að innflutningsskattur er á hrossum í löndum Evrópubandalagsins sé m.a. að leita í því að í janúarmánuði 1991 var tekin sú ákvörðun að Íslendingar tækju ekki átt í viðræðum um landbúnaðarmál þegar samið var um hið Evrópska efnahagssvæði. Það var gert í orði kveðnu til að knýja á um að tillögur kæmu fram um sjávarútvegsmál sem er skýringin á því að í lotunni fram eftir því ári komum við Íslendingar ekki að okkar athugasemdum í sambandi við landbúnaðarmálin né þeim sérstöku kröfum sem við höfðum fram að færa. Þegar þessi mál voru síðan tekin upp á nýjan leik haustið 1991 tókst okkur að ná fram nokkrum leiðréttingum, t.d. í sambandi við garðyrkjumálin. Landbúnaðarráðherra Þjóðverja, Kiechle, var okkur mjög vinsamlegur. En ég hygg að það kunni m.a. að vera skýringin á því að ekki tókst að ná þessum málum fram. Eins og málin lágu fyrir eftir stjórnarskiptin, og það er nauðsynlegt að hafa í huga, var búist við því að samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið næðu fram að ganga á miðju ári 1991. Við vorum þá í rauninni komnir í ákveðna kreppu, ákveðna stöðu í landbúnaðarmálunum og fram hjá því verður vitaskuld ekki horft þó okkur hafi tekist að ná fram þýðingarmiklum leiðréttingum á sumum sviðum.
    Ég vil í annan stað segja þegar við tölum um 7 þús. kr. gjaldið þá er verið að tala um hámarksgjald eins og stendur í lögunum. Það er talað um að ráðherra sé heimilt að leggja allt að 7 þús. kr. gjald á hvert útflutt hross og breytist það árlega. Maður getur auðvitað velt því fyrir sér hvort ástæða sé til að miða við þessa tölu eða kannski einhverja lægri. Ég held að aðalatriðið í sambandi við þetta frv. sé að á bak við það liggur mikil vinna og skoðanaskipti og hér er í grófum dráttum farin sú leið sem hrossabændur og hrossaútflytjendur sjálfir vilja fara. Eins og hv. þm. komst að orði þá hefur náðst verulegur árangur einmitt á þessu sviði. Útflutningshagsmunir okkar eru gífurlegir bæði beint og óbeint og þess vegna hygg ég að við eigum að reyna að fara þær leiðir að þessi útflutningsgrein geti ráðið sér sem mest sjálf þó við á hinn bóginn hljótum að gera ráðstafanir til þess að hið opinbera geti með útgáfu heilbrigðisvottorða og með öðrum hætti staðið á bak við eðlilega starfsemi og þær kröfur sem til ríkisins hljóta að vera gerðar.
    Ég vil leggja áherslu á að hlutverk Stofnverndarsjóðsins --- ég man ekki hvort það eru fleiri hestar af íslensku bergi brotnir í Þýskalandi eða á Íslandi eins og nú er komið, en hitt liggur auðvitað ljóst fyrir að þegar við erum að verja þessa hagsmuni og þegar við erum að tala um íslenska hestinn þá verðum við að hafa metnað til þess að upprunalandið geti staðið undir þeim kröfum sem til þess verður að gera. Þess vegna hygg ég að við verðum að leggja meiri rækt og meiri áherslu á kynbótastarfið en við þó höfum gert og einn þáttur í því er að nú er í athugun að efla þann þátt skólastarfsins á Hólum sem lýtur að hrossaræktinni og með öðrum ráðstöfunum að finna fjármuni til að efla rannsóknastarf og ræktunarstarf íslenska hestsins í víðasta skilningi þess orðs.
    Ég vil svo, herra forseti, þakka þær góðu undirtektir sem frv. hefur fengið og legg áherslu á að við munum að sjálfsögðu gera það sem í okkar valdi stendur til að reyna að ná samningum um að fella innflutningsgjöldin í Evrópubandalaginu niður. Ég hef líka orðið var við að ýmsir embættismenn utanrrn. eru miklir áhugamenn um íslenskan landbúnað. Í sumum tilvikum kannski um of. Og ég veit að ef öll sú mikla orka mundi fara til markaðsstarfs erlendis þá gætum við a.m.k. verið fullvissir um að atorkuna vantaði ekki.