Framleiðsla og sala á búvörum

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 16:51:02 (6174)


[16:51]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þetta er ekki langt frv. sem hér er verið að leggja fram og byggir á því að taka visst tillit til gróðurverndar og uppgræðsluaðgerða og ég er að sjálfsögðu sammála því að það sé gert.
    Ég vildi aðeins koma hér á framfæri einni athugasemd og það er vegna þess að hér segir í greinargerð með þessu frv., með leyfi forseta:
    ,,Ofangreindar tillögur miða að því að skapa aukið svigrúm til átaka í landgræðslustörfum og veita mönnum með takmarkaða starfsorku möguleika til að draga saman búskap án þess að það hafi tilfinnanlegan tekjumissi í för með sér. Jafnframt skapaðist nokkurt svigrúm til framleiðslu hjá öðrum bændum. Það er síðan sérstakt athugunarefni, hvort það svigrúm eigi að deilast hlutfallslega á alla framleiðendur eða deila því út á sérmerkt ,,sauðfjársvæði``.``
    Ég mundi vilja spyrja hæstv. landbrh. að því hvort ekki gæti komið til að það væri skoðað að deila því sem hér hugsanlega kæmi út, hvort því væri þá deilt á sérstök sauðfjársvæði, vegna þess að það er mikið um að sauðfjárbændur hafi farið mjög illa út úr þeirri skerðingu sem ákveðin hefur verið á síðustu árum. Nægir þar að nefna úttekt sem kom fram á búnaðarþingi þar sem jafnvel margir bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, lifðu nánast undir fátæktarmörkum. Ég tel að það þurfi að skoðast hvernig eigi að deila út þeim kvóta sem huganlega mundi losna þarna. Hingað til hefur þessi skerðing yfirleitt verið flöt, þó að visst ákvæði hafi verið til þess að hlífa nokkrum hlutum landsins þar sem hefur verið sérstakt sauðfjársvæði. Ég tel að þar hafi ekki verið nóg að gert og vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort það gæti komið til að sérstök sauðfjársvæði fengju meira í sinn hlut heldur en önnur.