Vöruflutningar á landi

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 17:27:11 (6185)


[17:27]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna tónninn er með þessum hætti í umræðunum. Við erum hér að tala um það að íslenskum flutningsaðilum opnist nýr markaður á hinu Evrópsku efnahagssvæði, geti farið þar inn á svið sem þeir hafa ekki leitað inn á áður. Með því gerum við okkur vonir um að við getum komið okkar matvælum --- það eru fyrst og fremst matvæli sem við flytjum út --- fyrr á markað og lækkað verðið. Það verður auðvitað til þess að lækka flutningskostnað enn frekar að nú hafa flutningsaðilar heimildir til þess að flytja vörur samkvæmt frv. innan þeirra landa sem þeir aka um í bakaleið þannig að við erum að tala um að flutningakosturinn nýtist betur. Það hefur það í för með sér að tilkostnaður lækkar ef menn hafa þá trú á því að Íslendingar geti nýtt sér þessi nýju tækifæri sem ég hef trú á.
    Í öðru lagi verð ég að láta í ljós undrun mína yfir því sem hv. þm. sagði varðandi Flugleiðir. Ég

skil satt að segja ekki hvernig á því stendur hversu margir þingmenn gera lítið úr þeim hugsmunum sem við Íslendingar höfum af því að þetta fyrirtæki, sem er sterkt á íslenska vísu en veikt á erlenda vísu, skuli starfa í landinu. Við erum að tala um 1.200 manns. Við erum að tala um fyrirtæki sem skilar um 6% af gjaldeyristekjunum. Við erum að tala um það að með samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði standa vonir til og raunar er vissa um að nýjar flutningsleiðir opnist fyrir íslensku vélarnar sem á að styðja rekstrargrundvöll flugsins, m.a. milli Ameríku og Evrópu og gera það kleift að fjölga ferðum milli Íslands og Evrópu og tek ég Kaupmannahafnarflugið þar sem dæmi.