Leigubifreiðar

129. fundur
Þriðjudaginn 12. apríl 1994, kl. 18:57:55 (6206)


[18:57]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni frv. til laga um breytingu á lögum um leigubifreiðar sem er á þskj. 915.
    Frv. er í raun og veru ein efnisgrein og hljóðar svo:
    ,,Í stað 4. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hlutaðeigandi stéttarfélag fólksbifreiðastjóra tilnefnir einn nefndarmann, annan tilnefnir sveitarfélag eða sveitarfélög sameiginlega á félagssvæði og hinn þriðja skipar ráðherra samkvæmt sameiginlegri tillögu viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna og hlutaðeigandi stéttarfélags fólksbifreiðastjóra. Nefndin kýs sér sjálf formann``.
    Eins og fram kemur í þessum texta, hæstv. forseti, er hér gert ráð fyrir því að sú nefnd sem 10. gr. laganna um leigubifreiðar kveður á um verði áfram skipuð þremur mönnum. Tveir þeirra verði skipaðir af viðkomandi aðilum, þ.e. annars vegar af sveitarfélagi eða sveitarfélögunum og hins vegar af stéttarfélaginu eða stéttarfélögunum. Hins vegar er gert ráð fyrir því að þriðji maður, sem nú er skipaður án tilnefningar af ráðherra verði skipaður af ráðherra en samkvæmt sameiginlegri tillögu sveitarfélagsins eða sveitarfélaganna og hlutaðeigandi stéttarfélaga.
    Tilgangurinn með þessari tillögu, hæstv. forseti, er einfaldlega sá að tryggja með ákveðnum hætti að nefndin, þessi úthlutunarnefnd starfi eingöngu eftir faglegum sjónarmiðum sem allir aðilar málsins eru sáttir við. Þannig háttar t.d. til núna að því er varðar þessa nefnd sem úthlutar þessum leyfum hér í því byggðarlagi þar sem við erum stödd, Reykjavík, að þar er í nefndinni fyrir sveitarfélagið eða sveitarfélögin á svæðinu, Sveinn Andri Sveinsson borgarfulltrúi og fyrir hæstv. ráðherra er Ragnar Júlíusson, fyrrv. borgarfulltrúi Sjálfstfl. Þannig að það er bersýnilega um að ræða flokkspólitískan meiri hluta Sjálfstfl. í þessari nefnd. Og það er óheppilegt, að ekki sé meira sagt miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi í atvinnumálum, þar sem leyfi til að gera út og aka leigubifreið er eftirsóknarverðara en nokkru sinni fyrr.
    Af þessum ástæðum var það, hæstv. forseti, sem fyrrv. hæstv. samgrh. hafði í þessu starfi þ.e. formennsku í þessari nefnd, Jón Þorsteinsson hæstaréttarlögmann, sem var í raun og veru óumdeildur fagmaður á þessu sviði, fullkomlega ópólitískt skipaður og um hann ríkti mjög góð sátt hjá báðum aðilum málsins. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að svipað kerfi verði tekið upp og þá var við lýði í góðu samkomulagi allra aðila.
    Í því frv. sem hæstv. samgrh. mælti svo hér fyrir áðan er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv. að     breyta 5. gr. laganna að því er varðar sendibifreiðar sérstaklega og að því er varðar vörubifreiðar sömuleiðis að þar verði um að ræða þriggja manna nefndir þar sem þriðji maðurinn er í báðum tilvikum skipaður án tilnefningar af ráðherra eins og gert er að því er varðar leigubílana. Ég tel að jafnframt því sem fjallað yrði um okkar frv. í hv. samgn. væri eðlilegt og óhjákvæmilegt reyndar að skoða einnig stöðu úthlutunarnefndanna varðandi vörubifreiðar og sendibifreiðar, þannig að ákvæði laganna, ef þetta verður að lögum, verði samræmd í þessu efni.
    Ég tel enga þörf á því, hæstv. forseti, að fara yfir þetta mál í lengri ræðu. Ég taldi hins vegar brýnt að koma þessu máli á framfæri úr því að leigubílamálin voru á annað borð komin hér á dagskrá, þ.e. úthlutunarkerfið verði tekið í gegn, það verði faglegt og hafið yfir deilur og þess vegna tel ég mjög brýnt að þetta frv. verði afgreitt samhliða hinum þegar hv. samgn. fær þessi mál til meðferðar.
    Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.