Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 14:16:32 (6225)


[14:16]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég býð hæstv. samgrh. velkominn í salinn og fagna því að hann hafi tækifæri til að gegna hér þingskyldum sínum. Ég á ekki sæti í hv. samgn. þannig að mig langar til að taka til máls við 1. umr. og segja nokkur orð.
    Þetta frv., og það er að segja stjfrv. fyrst og fremst, vegur að mínu mati að hagsmunum leigubílstjóra og það leysir upp félög þeirra og mér finnst vera eftirsjón af núverandi skipulagi. Málið er tilkomið vegna þess að aðili tók sér fyrir hendur að reyna að brjóta niður það kerfi sem hér hefur ríkt með aðstoð erlends dómstóls og það er sjálfsagt ekkert að gera annað heldur en að beygja sig undir þá kvöð. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að reyna að gera það eins mjúklega og hægt er og ekki meira heldur en nauðsynlega þarf.
    Mér er eftirsjón af núverandi skipulagi. Ég held að íslenskir leigubílstjórar séu almennt sómasamleg stétt og veita langflestir góða þjónustu. Þeir eru hér um bil allir góðir ökumenn og veita betri þjónustu heldur en víðast er gert af leigubílstjórum þar sem ég þekki til.
    Ég er ofurlítið kunnugur því að vera viðskiptavinur leigubílstjóra í nágrannalöndunum og ég tel að íslenskir leigubílstjórar standi þeim fyllilega á sporði.
    Ég nefni dæmi um höfuðborg okkar, Brussel. Þar morar allt í glæpalýð á leigubílum sem praktísera og þeir eru sannarlega ófélagsbundnir og algjörlega frjálsir og til þess arna getur frelsið leitt. Íslenskir þingmenn sem heimsótt hafa höfuðborgina geta sjálfsagt sagt sögur af viðskiptum sínum við þessa ,,bandítta`` í leigubílstjórastéttinni en þar er ekki óhætt að stíga upp í leigubíl nema hann sé merktur ákveðnum stöfum. Ég hef þurft að bíða í hótelanddyri tímunum saman vegna þess að dyravörður varaði mig við að taka þá leigubíla sem buðust og það var ekki fyrr en líklega tuttugasti bíllinn kom sem hann taldi að öruggt væri fyrir mig að aka með honum.
    Ég vil biðja hv. samgn. að athuga þetta mál mjög vel og vanda sig við þessa vinnu. Skylduaðildin hefur verið undirstaða þess að hafa nauðsynlegt eftirlit og aðhald með leigubílstjórum og þetta aðhald felst í því að félag leigubílstjóra á hverju svæði, atvinnusvæði, tryggir öryggi farþega með því að koma í veg fyrir að brotamenn eða gallaðir menn stundi akstur leigubíla í afleysingum. Jafnframt tryggir eftirlitið að atvinnuleyfishafar einir stundi akstur að jafnaði eins og mælt er fyrir í lögum. Þeir eru hinn rétti aðili til þess að gegna þessu eftirlitshlutverki. Ég bendi hv. samgn. að kynna sér vandlega álitsgerð sem Eiríkur Tómasson hefur unnið í framhaldi af dómi Mannréttindadómstólsins í máli Sigurðar Á. Sigurjónssonar gegn Íslandi, sem kveðinn var upp 24. júní 1993. Ég treysti því að hv. samgrn. vandi sig við þessa málsmeðferð alla.
    Varðandi þingmannafrv. á þskj. 824 þá er ég mótfallinn því. Ég held að það sé eðlilegt að menn sem eru farnir að hrörna til muna séu ekki að stunda farþegaakstur með leigubifreiðum. Á það er bent í frv. að aldursákvæðin gildi ekki um vörubifreiðastjóra, sendibifreiðastjóra eða rútubílstjóra. Mér finnst þetta léttvæg röksemd því það er auðvitað miklu erfiðara starf að keyra vörubifreið, sendibifreið eða rútubifreið og reynir meira á líkama ökumanns heldur en að keyra leigubifreið. Þar af leiðir er það sjálfhætt fyrir menn ef þeir eru farnir að hrörna verulegra að keyra þessa stóru bíla og þarf ekki ákvæði í lög þar um.
    Það gildir öðru máli með frv. til laga á þskj. 915 þar sem flm. eru hv. þingmenn Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Ég sannfærðist um það af lestri frv. og greinargerðarinnar og við að hlýða á ræðu 1. flm., Svavars Gestssonar, að þar er mál á ferðinni sem sannarlega er afgreiðsluvert og ég styð það. Ég styð sem sagt frv. á þskj. 915, ég er andvígur frv. á þskj. 824 og tel að stjfrv. þurfi mikillar athugunar við.