Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:17:42 (6237)


[15:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um við að ræða þrjú frumvörp um breytingu á lögum um leigubifreiðar. Stjfrv. mælti hæstv. ráðherra fyrir í gær og samkvæmt því sem segir í athugasemdum með frv. er hér verið að lagfæra lög með tilliti til dóma og ekki hvað síst Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa sagt að það sé nauðsynlegt að skoða þetta mál mjög vel og einnig lýsa yfir ánægju með það að hæstv. ráðherra hefur einnig sagt að það þurfi að fara vel í þetta mál og vel komi til greina að breyta þar ýmsu.
    Hins vegar verður einnig að taka fram að það er mjög lítill tími eftir fyrir hv. samgn. að fara yfir þetta mál. Samkvæmt starfsáætlun eru ekki nema örfáir dagar eftir af þinghaldi og mörg mál sem liggja fyrir. Ég er því ekki farin að sjá það að öll málin þrjú verði afgreidd fyrir þinglok. Ég tel að þau þurfi mikillar skoðunar við og ekki hvað síst með tilliti til þeirra sem eftir þeim eiga að vinna. Þá er hér einnig um mikilvæga þjónustu fyrir borgarana að ræða og þess vegna þarf einnig að ræða þessi frumvörp við þá sem nýta þessa þjónustu.
    Ég vil segja nokkur orð um frv. á þskj. 824 og ekki hvað síst vegna þess að í athugasemdum með frv. hæstv. samgrh. segir, með leyfi forseta:
    ,,Einn leigubifreiðastjóri, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi sitt í samræmi við ákvæði laga um leigubifreiðar, nr. 77/1989, höfðaði mál á hendur samgönguráðherra og byggði á því að með því að svipta sig atvinnuleyfinu vegna aldurs á grundvelli laga og reglugerða um leigubifreiðar sé brotinn á honum réttur sem honum beri samkvæmt stjórnskipulegri jafnræðisreglu.`` --- Þetta er ein af röksemdunum með því frv. ,,Hann taldi sig beittan ójafnræði eða misrétti sem fælist annars vegar í því að bifreiðastjórar sendi-, vöru- og langferðabifreiða séu ekki háðir sams konar ákvæðum um aldurshámark og hins vegar ekki heldur þeir bifreiðastjórar sem stunda leiguakstur á fólksbifreiðum á þeim svæðum þar sem fjöldi leigubifreiða til fólksflutninga hefur ekki verið takmarkaður. Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm sinn í málinu 3. júní 1993. Í forsendum dómsins er staðfest það mat héraðsdómara að til grundvallar ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/1989 um aldursmark bifreiðastjóra leigubifreiða til fólksflutninga liggi almenn og hlutlæg sjónarmið og gætt hafi verið jafnræðis við setningu laganna þar sem þau ná til allra sem eins eru settir. Brytu lögin því ekki jafnræðisreglu íslensks stjórnskipunarréttar.``
    Þess vegna er hér í frv. hæstv. samgrh. ekki talin ástæða til að leggja til þá breytingu sem hv. þm. Björn Bjarnason, Árni Johnsen og fleiri eru að leggja til á þskj. 824, þ.e. að ákvæði um aldurstakmark séu afnumin.
    Það skýtur nokkuð skökku við að hér sé verið að leggja fram frv. til þess að fullnægja ákvæði sem hefur komið fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og ekki talin ástæða til að breyta öðru vegna þess að það sé í samræmi við það sem Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm yfir. En jafnframt kemur fram frv. sem gengur í þveröfuga átt. Það frv. gerir ráð fyrir því að hundsa þennan dóm sem hér er vitnað til frá Hæstarétti Íslands.
    Menn hafa rætt mjög mikið um að þetta ákvæði mismunaði mönnum. Það næði ekki til bifreiðastjóra langferðabifreiða og ekki sendibifreiðastjóra og eða bifreiða fyrir átta farþega eða færri sem aka þar sem takmörkunin er ekki í gildi. Hvað varðar þau ákvæði, þá hafa ýmsar röksemdir komið hér fram um að það sé í rauninni sjálfhætt hjá þeim sem séu farnir að finna sig eitthvað lakari til þeirra verka. Mér finnst hins vegar alveg koma til greina að setja inn þetta ákvæði í lögum líka um langferðabifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra, að þetta ákvæði sé ekki aðeins í lögum um leigubifreiðar heldur þá einnig í lögum um sendibifreiðar og langferðabifreiðar. Ég tel að það þurfi að vera samræmi í þessum ákvæðum hér á landi þar sem flestallir þurfa að hætta sínu starfi í kringum 70 ára og því ekki nema eðlilegt að þetta gildi yfir sem flestar og helst allar stéttir, ekki hvað síst miðað við það atvinnuástand sem hér er nú. Ég tel því frekar koma til greina að þrengja þessi ákvæði í lögum um aðra bifreiðastjóra heldur en víkka þetta út eins og er lagt til í frv. til laga á þskj. 824.
    Það hefur hins vegar heyrst að það geti verið um að ræða að ýmsir hafi heimild til að reka bifreiðar án þess að keyra þær og þar séu í gildi nokkur atvinnuleyfi. Ég man nú ekki hvort það eru fimm eða tíu atvinnuleyfi sem enn þá gilda og menn hafa án þess að þurfa að keyra sjálfir, það séu eins konar rekstrarleyfi fyrir leigubifreiðar. Samkvæmt því leyfi eiga menn að geta haldið þeim rekstri áfram gegn því að aka ekki sjálfir eftir 70 ára aldur. Á þessu stigi hef ég ekki skoðað það mál nægilega vel til þess

að segja um það hvort hægt sé að koma slíku ákvæði inn eða heimild til að það leyfi gildi áfram. Ég tel að það þurfi að skoða það mjög vel í umfjöllun nefndarinnar hvort leyfin eru þannig að þau ætti að halda gildi sínu. Hér er ekki um mörg leyfi að ræða og vel má vera að hægt sé að veita undanþágu hvað það varðar. En ég tel að öll þessi frumvörp og þá einnig þetta atriði þurfi að skoðast mjög vel í hv. samgn. Og þar sem ég á sæti í þeirri nefnd hef ég ástæðu til að fylgja því eftir.
    Ég tel hins vegar í framhaldi af því sem ég sagði áðan að frekar ætti að þrengja þessi ákvæði hjá öðrum bifreiðastjórum heldur en víkka það út að menn séu að keyra eftir 70 ára aldur. Þá ætti frekar að skoða lífeyrismál og eftirlaunaréttindi þessara manna þannig að þeim sé gert kleift að hætta sómasamlega um sjötugt eins og flestallir aðrir verða að gera í atvinnu hér í landi. Það sem ég hygg að sé oft og tíðum ástæðan fyrir því að menn vilja gjarnan halda þessu áfram lengur er að þeir hafa lítið annað upp á að hlaupa og lífeyrismál þeirra og eftirlaunaréttindi eru mjög lítil eða mjög skert. Þetta þyrfti aftur á móti að skoða.
    Við 1. umr. málsins er í raun og veru ekki hægt að segja fleira um þetta. Hér er einnig til umræðu þriðja frumvarp þessarar tegundar á þskj. 915, þar sem verið er að ræða um nefndaskipun. Mér sýnist þetta vera fyrst og fremst formsatriði og spurning um pólitíska íhlutun í nefndaskipun af hálfu ráðherra og er það sjálfsagt að skoða það jafnframt í samgn. og mjög eðlilegt að þessi frumvörp séu öll rædd og tekin fyrir samhliða, en ég vil enn og aftur vekja athygli á því að frv. nokkurra stjórnarliða í flokki hæstv. samgrh. gengur þvert á það sem segir í athugasemdum með frv. ráðherrans.