Samfélagsþjónusta

130. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 15:29:16 (6238)


[15:29]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um þessi þrjú frumvörp. Ég á sæti í samgn. og hef hlýtt á þessar umræður eins og ég hef haft möguleika til, þurfti reyndar að bregða mér frá í fáar mínútur áðan. Það sem mig langaði til að ræða um í þessu máli er það til að byrja með að mér þykir slæmt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstaddur til að taka þátt í umræðunum til enda. Ég hefði t.d. gjarnan viljað hlýða á hann segja álit sitt á frv. þeirra hv. þm. Björns Bjarnasonar, Árna Johnsens, Egils Jónssonar, Guðna Ágústssonar, Sigbjörns Gunnarssonar og Sturlu Böðvarssonar vegna þess að það gengur í öfuga átt við það sem í frv. hæstv. ráðherra er og hefði verið ástæða til þess fyrir nefndarmenn að heyra hvernig ráðherrann lítur á málið.
    Það er ýmislegt sem hægt er að ræða í tengslum við þetta mál. Auðvitað hefur sá dómur sem kveðinn var upp rekið menn til þess að gera þessar breytingar, en það er ekki eins og ekki hafi verið rætt um þessi mál líka af öðrum tilefnum. Ég vil segja það að ýmis spurningarmerki hafa komið upp í mínum huga við að hlýða á þessa umræðu og að lesa þau gögn sem fylgja frv. Það er t.d. umhugsunarefni að það skuli vera þannig að einungis á fimm stöðum á landinu séu þessar takmarkanir á fólksbifreiðum og þau rök sem menn hafa fært fram fyrir takmörkunum missa dálítið gildi sitt þegar reynslan sýnir það að takmarkanirnar eru ekki víðar heldur en þetta. Þó að það sé á stærstu stöðunum í landinu þá er það ekki í hinum stærri kaupstöðum nema á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Allir aðrir stærri staðir í landinu, kaupstaðir og bæir, hafa ekki þessar takmarkanir samkvæmt þeim gögnum sem hér hafa verið lögð fram. Það væri ástæða fyrir nefndina að gera sér grein fyrir því hvernig þessum málum er háttað núna á þeim stöðum þar sem takmarkanir hafa ekki verið.
    Helstu breytingar sem eru í frv. er þessi nauðsynlega breyting vegna dóms Mannréttindadómstólsins --- og nú fagna ég hæstv. ráðherra, hann er mættur í salinn og ég vil endurtaka þá spurningu sem ég bar fram áðan eða hefði borið fram ef hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur. ( Samgrh.: Það er erfitt að endurtaka spurningu sem ekki hefur verið borin fram.) Ég geri það þá núna að endurtaka spurninguna. Hún fjallar um hvaða álit ráðherrann hefur á frv. þeirra hv. þingmanna Björns Bjarnasonar og fleiri sem hér liggur til umræðu ásamt hinum tveimur. Það væri náttúrlega ekki verra að hæstv. ráðherra gerði okkur grein fyrir því hvaða afstöðu hann hefur til frv. sem er á þskj. 915 líka og hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon flytja.
    Ég viðurkenni það að mér finnst það vera dálítið sterk rök í málflutningi þeirra Björns Bjarnasonar og félaga að það þurfi að gilda reglur sem komi eins út fyrir alla. Spurningin er auðvitað hvernig þær reglur eiga að vera. Það er greinilegt að það gengur ekki að þær séu eins og frv. hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir. Það verða að gilda einhverjar almennar reglur um aldur leigubílstjóra og annarra bílstjóra því auðvitað þarf að vera samræmi í reglum um atvinnuréttindi manna í landinu. Ég er ekki einn af þeim sem telja að það eigi að setja einhver aldursmörk sem gildi burt séð frá líkamlegu og andlegu ástandi manna. Ég tel að menn eigi að fá að vinna eins lengi og þeir geta og hafa tækifæri til ef þeir hafa aðgang að vinnu. Ég fell ekki fyrir þeim rökum að þetta þjóðfélag eigi að búa sig undir að búa við eitthvert stórkostlegt atvinnuleysi í framtíðinni. Ég tel þess vegna að reglur um svona hluti eigi fyrst og fremst að lúta að öryggisatriðum og það séu einhvers konar prófanir eða réttindi manna endurskoðuð með ákveðnu millibili á líkan hátt og bifreiðapróf manna eru endurskoðuð þéttar eftir því sem aldurinn færist meira yfir þá. Þá má alveg eins gera það í sambandi við atvinnuréttindi þar sem menn þurfa auðvitað að vera betur á sig komnir og til þess að geta haft með höndum ábyrgðarmikil störf eins og það hlýtur að vera að keyra t.d. leigubíl. Menn þurfa auðvitað að vera í góðu formi til þess að bregðast við öllum aðstæðum í umferðinni og annað því um líkt.
    En þetta á við að mínu viti um öll störf og mér finnst að það þurfi að vera eitthvert samræmi í því sem verið er að setja í reglur. Ég tel að nefndin þurfi að ræða þessi mál á víðum grundvelli og ég harma það að þetta frv. skuli ekki hafa komið fyrr til umræðu af þeim ástæðum að það er örugglega þörf á því að nefndin fari vandlega yfir það og skoði þau tvö frv. sem hér eru til umræðu ásamt frv. hæstv. ráðherra líka.
    Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því hvaða afstöðu hann hefur til hinna frumvarpanna.