Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 23:55:13 (6307)


[23:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki farið yfir umsagnir aðila um þetta mál og skal ekki leggja neitt mat á þær. Það skiptir út af fyrir sig ekki máli í mínum huga efnislega hverjir hafa hlaupið inn á þau sjónarmið sem tengjast þessu frv. og hverjir ekki. Það sem skiptir máli er að meta það hvort hér er rétt ráðið eða ekki. Það hefur komið mjög skýrt fram einnig í síðustu ræðu hæstv. umhvrh. að það er stjórn Hollustuverndar ríkisins sem hefur ráðið ferðinni í þessu máli. Verið alveg ráðandi. Það voru þau sjónarmið sem þessir hæstv. ráðherrar tveir keyptu, tóku upp og báru inn á Alþingi í þessum dæmalausa pappír sem þetta frv. er, þar sem ekki er að finna viðleitni til rökstuðnings fyrir tillögunni.
    Hæstv. umhvrh., hann hlakkar hér vegna þess að hann ímyndar sér að hann sé að ná einhverjum árangri hér fyrir hönd síns ráðuneytis en hann er fyrst og fremst að safna eldi að höfði sér að skapa vandræði fyrir sig í sambandi við það og kannski þá sem við taka að treysta undirstöður þessa ráðuneytis á þeim sviðum sem þarf að efla það. Það var ekki bætt mörgum rökum við í því sambandi. En ég gæti trúað því að þeir ættu eftir að verða nokkuð margir sem eiga eftir að minnast þeirrar tillögu sem hér er til umræðu og undrast það efni sem hér er flutt. Og ekki síst að velta fyrir sér hvernig það mátti verða að ráðherra heilbrigðismála skyldi gera það að sinni tillögu að flytja matvælaeftirlit úr sínu ráðuneyti yfir til umhvrn.