Hagræn stjórntæki og umhverfisvernd

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:19:37 (6420)


[15:19]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir áhuga hans á þessum málum, málaflokknum í heild. Nú er það svo að til þess að ná markmiðum sínum í umhverfismálum hafa stjórnvöld einkum þrjá valkosti, þ.e. fræðslu, löggjöf, einhvers konar boð og bönn, og jafnframt hagræn stjórntæki. Það síðasta byggist á því að ríkisvaldið getur haft áhrif á hegðun fólks með því að beita gjöldum og sköttum og beisla þannig markaðsöflin í þágu umhverfisverndar. Víða um heim er vaxandi umræða einmitt um notkun hagrænna stjórntækja til að stuðla að umhverfisvernd. Er bent á að með því að flytja skattbyrði frá launa- og tekjusköttum einstaklinga í auknum mæli yfir í mengunar- og auðlindaskatta, þá megi mögulega vinna gegn frekari óæskilegri þróun á báðum þessum sviðum. Um þessar mundir fer fram mjög ítarleg skoðun á þessum möguleikum hjá OECD.
    Eitt meginstefið í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum er aukin notkun hagrænna stjórntækja til að laga atvinnulíf og neysluhætti að kröfum sjálfbærrar þróunar. Þessi áhersla á hagræn stjórntæki markar nokkur tímamót í umfjöllun um umhverfismál hér á landi og mun væntanlega þegar fram líða stundir verða æ mikilvægari eftir því sem þekking fólks á þeim möguleikum sem bjóðast með þessum hætti eykst. Hagræn stjórntæki eru hins vegar ekki óþekkt fyrir okkur Íslendinga. Hér má t.d. nefna að við höfum beitt lægri innflutningsgjöldum á létta og sparneytna bíla, við höfum sett lægri skatta á blýlaust bensín og við höfum sett skilagjald á einnota umbúðir utan um ýmsar drykkjarvörur. Það var einmitt tekið á þessu í úttekt OECD á umhverfismálum á Íslandi og lokið talsverðu lofsorði á það hvernig okkur hafi tekist þarna til.
    Það má líka nefna almenna skattlagningu á bensín sem virkar líka sem hagrænt stjórntæki þó að upphaflegi hvatinn að þeim skatti hafi ekki verið umhverfisvernd. Það mál fullyrða að þessar aðgerðir hafa skilað verulegum árangri og þær hvetja til frekari aðgerða á þessu sviði.
    Í umhvrn. er verið að vinna að nokkrum málum sem byggjast á notkun hagrænna stjórntækja. Hið fyrsta varðar frekari skilagjöld af einnota umbúðum, en árangurinn af skilagjaldi á gosdrykkjaumbúðir er hvati til að gera enn betur á því sviði. Í því sambandi þarf að taka afstöðu til skilagjalda á ýmsum öðrum vörum. Ég nefni hér sem dæmi skilagjald á hjólbarða- og landbúnaðarplast en hvort tveggja má endurvinna. Annað mál varðar svo skilagjöld á bílum sem er í vinnslu. Í fyrra var lagt fram frv. um það efni, en þó meginhugmynd þess hafi verið nokkuð góð, þá eru mörg atriði um framkvæmd og kostnað sem eru flókin og krefjast ítarlegri skoðunar. Sú vinna er í gangi og til hennar hafa m.a. verið kvaddir sérfræðingar við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
    Þriðja málið í þessum anda verður lagt fram á næstu dögum hér í þinginu, en það hefur þegar verið samþykkt til framlagningar í ríkisstjórn þó að ekki séu líkur á því að það verði samþykkt það sem eftir lifir þessa þings. Það er frv. til laga um sérstakt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Eins og staðan er í dag þá greiða menn fyrir eyðingu spilliefna eftir notkun þeirra. En reynslan hefur sýnt að það er ekki hvati til viðunandi eyðingar og endurvinnslu spilliefna. Það er eðlilegra að menn greiði fyrir eyðingu vörunnar þegar þeir kaupa hana og hún er þeim til einhverra nota fremur en þegar hún er þeim einskis nýt. Sem dæmi um vöru sem þetta gjald mun ná til verði frv. að lögum í fyllingu tímans eru olíuvörur, lífræn leysiefni, málning og litarefni, rafhlöður, rafgeymar og ljósmyndavörur. Og ég hika ekki við að segja, virðulegi forseti, að verði þetta frv. að lögum, þá mun það valda straumhvörfum í meðferð spilliefna hér á landi.
    Á grundvelli stefnuskrár ríkisstjórarinnar og samþykktar Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun, þá er nú verið að vinna að áætlunum í umhverfismálum fram til ársins 2000. Þeirri vinnu, virðulegi forseti, lýkur væntanlega í sumar. Frekari notkun hagrænna stjórntækja hlýtur að taka nokkurt mið af þeirri niðurstöðu sem vinnuhóparnir komast að. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að þar verði hafin gagnger endurskoðun skattalaga og opinberra gjalda til að laga neyslu, atvinnulíf og hagkerfin að kröfum sjálfbærrar þróunar. Hér er vissulega stórt hugsað. Þetta stefnumið er hins vegar í samræmi við þá alþjóðlegu umræðu sem á sér nú stað um nánari samþættingu efnahagsmála og umhverfismála. Fyrsta skrefið að þessu markmiði er vitaskuld að auka þekkingu og áhuga almennings, en jafnframt forustu fólks á öllum sviðum þjóðlífsins á hagrænum stjórntækjum. Það dugar ekki að fáeinir áhugamenn um umhverfismál sinni þessu ef allur fjöldinn, ekki síst þeir sem véla um umhverfismál, efnahags- og skattamál sjá ekki möguleikana sem hagræn stjórntæki bjóða einmitt upp á.
    Það fara miklar umræður fram, virðulegi forseti, einmitt um þessa þætti í löndunum í kringum okkur og það er nauðsynlegt að ná þeirri þekkingu og þeirri reynslu sem menn hafa nú þegar hingað inn í landið. Það má geta þess í lokin, virðulegi forseti, að í umhvrn. höfum við í hyggju að halda ráðstefnu um þetta efni til að auka áhuga og skilning manna, ekki hvað síst innan Stjórnarráðsins á þessum málaflokki og einnig þeirra sem fara með atvinnulífið í landinu.