Hagræn stjórntæki og umhverfisvernd

134. fundur
Mánudaginn 18. apríl 1994, kl. 15:25:57 (6422)


[15:25]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið sem hv. þm. Árni M. Mathiesen heldur hér fram að það er nauðsynlegt þegar menn taka upp beitingu hagrænna stjórntækja í auknum mæli, að það verði ekki til þess að þyngja um of álögur atvinnulífsins. Og það er einmitt þess vegna sem við í umhvrn. höfum reynt að starfa með atvinnulífinu, reynt að starfa með þeim sem þar fara með þessi mál og satt að segja er mér ljúft að upplýsa það að þaðan höfum við oft fengið ágætar hugmyndir. Það er líka svo að það er ánægjuefni að einmitt forustumenn í atvinnulífinu eru fullir skilnings á þessu og á sumum sviðum hafa þeir raunar stigið skrefum framar en stjórnvöld hafa ætlast til af þeim.