Fjáröflun til vegagerðar

137. fundur
Þriðjudaginn 19. apríl 1994, kl. 16:35:57 (6471)


[16:35]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 971 er nál. frá efh.- og viðskn. um þetta mál, en til þess að ræða það komu aðilar frá fjármálaráðuneytinu þeir sömu og ég áður nefndi. Nefndin mælir með því að frv. þetta verði samþykkt. Það er þó gerð brtt. þannig að lagt er til að 1. gr. frv., sem er aðalgrein þess, 2. málsl. breytist þannig að lagagreinin orðist svo:
    ,,Heimilt er að endurgreiða útlagðan kostnað vegna kaupa á ökumælum, vegna nýskráningar bifreiða, tengi- eða festivagna eða vegna nauðsynlegrar endurnýjunar á ökumælum í bifreiðar, tengi- eða festivagna ef ákvörðun er tekin um að hætta að miða innheimtu þungaskatts við ekna kílómetra samkvæmt ökumælum.``
    Hér er um nokkuð óvenjulega lagagerð að ræða því endurgreiðsla á þessum kostnaði er háð því að sú nýbreytni verði tekin upp að skattlagningin á olíuna fari fram við sölu á olíunni sjálfri en ekki með því að leggja á þungaskatt. Það er mikill áhugi fyrir því að taka upp þessa nýbreytni og var að heyra á nefndarmönnum í efh.- og viðskn. að almennur stuðningur gæti verið við það.
    Til þess að skapa meiri vissu fyrir þá sem þurfa við það að búa í framtíðinni þá þykir nauðsynlegt að þeir geti verið nokkuð vissir í sinni sök þegar þeir fjárfesta í nýjum mælum þannig að ef til þess kemur að þeir verði lagðir niður þá eigi þeir kost á því að fá þann kostnað sem þeir hafa lagt í endurgreiddann.

    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál en endurtek að efh.- og viðskn. leggur til að frv. þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef tilgreint.