Vegalög

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 16:37:44 (6553)


[16:37]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Austurl. og formanni landbn. fyrir þessar upplýsingar og það sem hann sagði og það er allt rétt sem hann greindi frá að það var í samráði við mig sem þessi tilhögun var valin. Ég vona að enginn hafi skilið mál mitt svo að ég væri ekki prýðilega sáttur við það að málið yrði þá sett í þennan farveg. Það var í raun og veru það sama sem ég var að fara fram á og ítreka og árétta að ég óskaði eftir því að þessi þáttur málanna, þessi hlið á þessum lausagöngu- eða búfjárhaldsmálum yrði skoðaður samhliða ákvæðum um afgirðingu vegarsvæða og þeirra reglna sem þar ríkja, þar sem því verki er þá lokið að girða vegsvæðin algerlega af þannig að nokkuð heildstæð mynd fengist á þessi samskiptamál búpeningsins og umferðarinnar í landinu. Ég ítreka að ég þakka hv. formanni landbn. fyrir að málið er þó á hreyfingu með þessum hætti sem hann greindi hér frá.