Lífeyrissjóður sjómanna

140. fundur
Mánudaginn 25. apríl 1994, kl. 17:32:30 (6569)

[17:32]

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég tek undir að það er rétt að verða við þeim óskum og fallast á það tilboð hæstv. fjmrh. að umræðunni verði frestað og hv. nefnd geti á nýjan leik farið yfir málið. Ég held að það sé tilefni til og skal þess vegna ekki hafa langt mál um það á þessu stigi. Ég vil bara skýra það að undir nál. rita fulltrúar allra fokka í hv. efh.- og viðskn. að það var aldrei í meðferð málsins í nefndinni hreyft neinum sjónarmiðum í þá átt að afgreiðsla frv. sem slíks og sú breyting sem þarna væri verið að gera væri sérstaklega tengd fyrirhugaðri réttindaskerðingu sjómanna. Það var bara ósköp einfaldlega ekki á dagskrá. Sé ástæða til að ætla slíkt og í ljósi þess að nú liggja fyrir, sem ekki lágu fyrir þegar nefndin afgreiddi málið, drög að reglugerð á grundvelli laganna um Lífeyrissjóð sjómanna, þá er fullt tilefni til að fara yfir það á nýjan leik, m.a. vegna þess að það er löngu viðurkennt að það er ekki eingöngu í sjálfsvaldi stjórnar eða forráðamanna Lífeyrissjóðs sjómanna að ákveða hvernig verði með lífeyrisréttindi sjómannastéttarinnar farið. Sú ákvörðun að færa þennan aldur niður í 60 ár var tekin á sínum tíma á pólitískum grundvelli og sama má segja að gildi til að mynda um sjómannafrádráttinn. Það er viðurkenning á því að það sem stundum eru kölluð erfiðismannaákvæði og eru þekkt í löggjöf sums staðar í nágrannalöndunum, að vissar stéttir búa við önnur kjör bæði varðandi starfslokaaldur, lífeyrisréttindi og annað því um líkt, eiga við um íslensku sjómannastéttina. Það voru augljóslega pólitískar ákvarðanir.
    Þetta hefur líka verið viðurkennt í verki með því að fjármunir hafa verið settir í Lífeyrissjóð sjómanna til þess að gera honum kleift til að standa undir þessum skuldbindingum gagngert vegna þess að menn vissu að sjóðurinn gæti það ekki ella einn og óstuddur því að engar iðgjaldagreiðslur frá fyrri tíð stóðu undir þeim skuldbindingum sem á sjóðinn voru lagðar með þessum breytingum. Og jafnvel þó að þær hefðu ekki komið til þá hygg ég að Lífeyrissjóður sjómanna hefði átt í miklum erfiðleikum með að uppfylla þær skuldbindingar sem á hann leggjast, m.a. vegna þess að aðild sjómannastéttarinnar að lífeyrissjóðum hefur verið nokkuð margbrotin eins og kunnugt er.
    Ég veit að það er óþarft að rifja það upp fyrir mönnum sem þekkja þessa sögu að í Lífeyrissjóð sjómanna hafa t.d. gengið gengismunafjármunir. Inn í Lífeyrissjóð sjómanna hafa gengið fjármunir úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Nú síðast þegar útgreiðslurnar fóru fram 1992 var hluta af þeim fjármunum ráðstafað til Lífeyrissjóðs sjómanna. Á þessum vetri liggja fyrir Alþingi mál þar sem Lífeyrissjóð sjómanna hefur borið á góma og þá nefni ég til að mynda áform hæstv. fjmrh. um að fénýta eftirstöðvar í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins og láta þær renna í rekstur ríkisstofnana. Sjómenn hafa minnt á að það væri í samræmi við hefð og það sem áður hefur verið gert að láta a.m.k. einhvern hluta þeirra fjármuna renna sem framlag í Lífeyrissjóð sjómanna. Með því að vitna í þessi dæmi held ég að sé nægjanlega rökstutt að menn hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að eins og Lífeyrissjóður sjómanna stóð 1980 var hann ekki í neinum færum til að mæta þeim skuldbindingum sem pólitískar ákvarðanir voru teknar um að leggja á hans herðar með því að bæta réttarstöðu sjómanna í þessu sambandi.
    Þess vegna er að mínu mati ekki heldur rétt að afgreiða málið þannig núna að segja: Þetta er bara ósk Lífeyrissjóðs sjómanna og stjórn sjóðsins sé þar með í sjálfsvald sett að taka eftir atvikum ákvörðun um að skerða réttindin ef svo ber undir, eins og hér er til umræðu.
    Ég held að af þessum ástæðum sé augljóslega rétt að nefndin fari aftur yfir málið. Það er líka rétt sem hér kom fram að í nefndinni lágu ekki fyrir nein sérstök eða ný gögn um afkomu eða stöðu lífeyrissjóðsins sem slíks. Nú vill að vísu svo til að mikið hefur verið unnið á öðrum vettvangi í málum lífeyrissjóðanna almennt og þar eru til ýmsar upplýsingar um Lífeyrissjóð sjómanna eins og um aðra lífeyrissjóði. En af þessu tilefni komu ekki sérstakar upplýsingar til nefndarinnar um stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna.
    Auðvitað er það svo rétt, sem hér hefur verið bent á, að það er grundvallarmunur á réttarstöðu sjómanna annars vegar ef réttindin eru lögbundin og föst í lögum um sjóðinn og hinu að þau séu færð yfir í reglugerðarákvæði eða samþykkt sem sjóðstjórnin ein og sér hefur á valdi sínu að gefa út og breyta. Auðvitað er það alveg ljóst. Það er því sem bent er á að Alþingi þarf að átta sig á því ef það er vilji manna hér að færa þetta til þannig að það verði opið að breyta því með einfaldri reglugerðarbreytingu.
    Þá vaknar sú spurning hvaða umbúnað menn vilja hafa um þessi mál og hvaða pólitískan vilja menn vilja hafa hér til að tryggja lífeyrisréttindi sjómannastéttarinnar eins og áform og hugur manna stóð til þegar breytingarnar voru gerðar um 1980.
    Þetta vildi ég taka fram, hæstv. forseti, vegna þeirra orðaskipta sem fóru fram milli hæstv. fjmrh. og hv. 9. þm. Reykv. Aðru leyti fagna ég því að umræðunni verði frestað og efh.- og viðskn. fái á nýjan leik kost á því að fara yfir málið.