Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:43:17 (6648)



[13:43]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna skriflegs svars sem ég hef fengið frá hæstv. landbrh. við fyrirspurn um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins. Mér barst þetta svar fyrir nokkrum dögum síðan og ég vil láta það koma fram hér að ég er mjög ósátt við það. Ég tel það algjörlega ófullnægjandi. Það eru nánast 2--3 línur, svarið við hverri spurningu sem er í allmörgum liðum, og því er á engan hátt svarað þannig að hægt sé að una því. Það er ýmist svarað að það sé í skoðun, það sé í endurskoðun eða engin þörf á því að fara eftir þessum ábendingum. Það má m.a. nefna það að bent er á að það sé nauðsynlegt að endurskoða lög um Landgræðslu ríkisins. Þau lög eru frá 1965 og því er vísað frá vegna þess að þá þurfi jafnframt að skoða önnur lög.
    Ég vil mótmæla því að fá svona svar við efnislegum spurningum sem full þörf er á að skoða eftir athugun Ríkisendurskoðunar og óska eftir því að fá nákvæmari svör við þessum spurningum.