Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd, svar landbrh. við fyrirspurn

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 13:49:04 (6651)


[13:49]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vænti að öllum sé ljóst að hér er afar brýnt og alvarlegt mál á ferðinni, þ.e. staðan eins og hún blasir við nú. Þetta er spurning um það hvort við smám saman glötum auðæfum þjóðarinnar, orkulindum hennar, réttinum til þeirra til annarra aðila, ekki bara einkaaðila hér á landi heldur hvarvetna af hinu Evrópska efnahagssvæði. Það hefur verið vísað á að það verði frestur út árið 1995 í þessu efni, en þá er betra að vera búinn að ganga frá löggjöf um það efni sem tryggir eignarrétt þjóðarinnar. Í ritinu ,,Velferð á varanlegum grunni`` sem ég nefndi stendur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Gerð verður áætlun um rannsóknir og nýtingu orkulinda landsins og landgrunnsins. Lagt verður fram fumvarp um eignarhald á orkulindum og afréttum og almenningum á 115. löggjafarþingi.`` --- Ég held að það sé 117. löggjafarþing núna, virðulegur forseti. Fleira segir um þetta sem ég ætla ekki að vitna til, hvernig greint verði á milli afrétta og almenninga o.s.frv. sem menn geta lesið sig til um í þessu riti. Ég tel því að það sé alveg hraklega að máli staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. iðnrh. upplýsir að það sé ekkert samkomulag um málið. Þetta er staðan eftir yfirlýsingar ráðherra Alþfl. ár eftir ár eftir ár um þetta efni. Það skal vanda sem vel á að standa, át fyrrv. hæstv. iðnrh. upp eftir sjálfum sér árum saman hér á þingi og svo virðist sem ekki sé búið að tryggja þennan grundvöll enn þá. Ég er ekki að gagnrýna Alþfl. vegna viljaleysis í málinu. Ég gagnrýni Sjálfstfl. fyrir fyrirstöðuna og raunar á Framsfl. a.m.k. að hluta til þá sneið.