Framleiðsla og sala á búvörum

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:03:31 (6655)

[14:03]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti landbn. en það álit er undirritað af öllum nefndarmönnum. Einn nefndarmaður, hv. þm. Árni Mathiesen, hefur undirritað álitið með fyrirvara og gerir að sjálfsögðu grein fyrir þeim fyrirvara sjálfur.
    Hér er fjallað um frv. til laga á þskj. 898, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Fyrir frv. talaði hæstv. landbrh. og gerði í þeirri ræðu grein fyrir því hvað í frv. felst. Auk þess fylgdu frv. athugasemdir sem skýra það mál á fullnægjandi hátt.
    Landbn. hefur lagt fram brtt. á þskj. 1007 sem eru skýrðar allrækilega í nál. á þskj. 1006 og get ég í meginatriðum vísað til þess sem þar kemur fram. Hins vegar þykir mér vert að geta hér nokkurra atriða til frekari skýringa.
    Það er þá fyrir það fyrsta að 2. liður tillagnanna kemur til viðbótar við 1. gr. frv. Í honum felst í rauninni það eitt að hægt er að gera samning og samkomulag undir vissum kringumstæðum við bændur sem kunna af einhverjum ástæðum að æskja þess að leggja niður sauðfjárframleiðslu af öðrum ástæðum heldur en tilgreindar eru í frv. sjálfu án þess að þeir tapi sínum beingreiðslum. Þessi heimild er sem sagt skýrð í 2. tölul. okkar tillagna. Það skýrðist í umræðunni um þessi mál, m.a. vegna tilmæla Stéttarsambands bænda að nauðsynlegt væri að koma á öðrum breytingum í búvörulögunum og féllst nefndin á að fjalla sérstaklega um þau mál og gera þau að tillögum sínum.
    Það er þá í fyrsta lagi eins og fram kemur í 1. tölul. brtt. að kveðið er skýrt á um það að landbrh. hafi forræði útflutningsmála og þessari ákvörðun er fundinn staður í 3. gr. laganna. Þetta kemur einkum til af því að umsagnarréttur Stéttarsambandsins féll niður þegar fjallað var um búvörulögin á sl. vetri

og 53. gr. þar með breytt. Auk þess hefur landbrh. forræði yfir nokkrum hluta af útflutningi landbúnaðarvara en ekki öðrum og þykir því eðlilegt að þetta sé tekið fram með ótvíræðum hætti. Af þessari ástæðu er gerð tillaga um að breyta 3. gr. búvörulaganna með þeim hætti sem fram kemur í tillögu nefndarinnar.
    Allmikil umræða fór fram í nefndinni um framleiðslumálin og birgðasöfnun, einkum í nautakjöti og kindakjöti, og samkvæmt ítarlegum áætlunum sem fyrir nefndina voru lagðar þá liggur það nokkuð ljóst fyrir að birgðir í lok næsta verðlagsárs eru áætlaðar um 400 tonn. Til þess að koma þeim birgðum úr landi er talið að muni þurfa um 80 millj. kr. og í tillögum nefndarinnar er fallist á að veita um eins árs skeið viðbótarheimild til innheimtu á sérstöku gjaldi sem mest má nema 5% af afurðaverði til að mæta þessari fjárþörf. Ég vek á því sérstaka athygli að hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða sem varir aðeins næsta framleiðsluár og ég vil líka benda sérstaklega á það í þessu sambandi að gagnstætt því sem er um hliðstætt ákvæði í 20. gr. búvörulaganna þá er þessi heimild til landbrh. ekki skilyrt við samþykki aðalfundar Stéttarsambands bænda eins og 20. gr. gerir ráð fyrir. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sú að með því að skilyrða ekki þessa heimild er hægt að hefjast þegar handa við undirbúning að þessum útflutningi. Það þarf ekki að bíða haustsins og samþykkis aðalfundar Stéttarsambandsins og þar af leiðandi gefst betri tími og meira ráðrúm til þess að undirbyggja þennan útflutning. Þetta er sem sagt skýringin á því hvers vegna hér er brugðið frá því sem er í 20. gr. og ég vek enn og aftur athygli á því að hér er um að ræða bráðabirgðaákvæði sem er einungis í gildi næsta framleiðsluár.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að skýra hér brtt. og nál. landbn. og legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 3. umr.