Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:27:35 (6658)


[14:27]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir litlu frv. sem landbn. Alþingis flytur. Það er um útflutning hrossa og felur það eitt í sér að lengja það tímabil um einn mánuð sem nú er í lögum um að heimilt sé að flytja út hross við vel búnar aðstæður ofan þilja.
    Lögin kveða á um það eins og þau eru að frá 1. nóv. til 1. júní sé einungis heimilt að flytja hross til útlanda í flugvélum eða í sérstökum gripaflutningaskipum. Breytingin er sú að þessi skilyrði verði nú bundin við 1. nóv. til 1. maí. Í því felst sú breyting sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Með því að það er nefnd sem flytur þetta frv. þá hygg ég, virðulegi forseti, að það sé óþarft að vísa því aftur til nefndar og geri því tillögu um að því verði vísað til 2. umr.