Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:42:05 (6661)


[14:42]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er verið að flytja hérna mikið af frumvörpum um hina fornu höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, og það er þannig að eftir því sem minna verður til skiptanna, eftir því er nákvæmnin meiri í lagasetningunni og prósenturnar fleiri eins og menn þekkja úr drögum að sjávarútvegsfrumvörpum sem einhvers staðar eru til hér í þessum húsum.
    Eins er það í þessari landbúnaðarlöggjöf sem við eigum að það er satt að segja alveg ótrúlega langt gengið víða í að kveða á um einstök atriði, fyrirkomulagsatriði í löggjöf sem eru taldir sjálfsagðir hlutir manna í millum. Dæmi um það er í þessu prýðilega frv. sem hér liggur fyrir og ég hef út af fyrir sig enga sérþekkingu á eða vit á að öðru leyti en því að mér finnst nokkuð athyglisvert að hafa hér inni eftirfarandi setningu með leyfi forseta: ,,enda hafi þau`` þ.e. hrossin ,,áður verið fóðruð inni á heyfóðri`` ekki kögglum væntanlega ,,og skulu nánari reglur settar um það`` þ.e. væntanlega fóðrið ,,í reglugerð.``
    Nú er þetta ekki svona, því að reglugerðin á að vera um flutninginn og hvernig að honum er staðið þannig að ég vil heldur mælast til þess að þeir menn sem sitja í landbn. skemmti sér við það milli 2. og 3. umr. að stytta þetta frv. sem hér liggur fyrir og ganga út frá því sem vísu að það séu settar kröfur á milli þeirra aðila sem kaupa og selja hross sem duga í þessum efnum, en að ekki sé kveðið á um það í einstökum atriðum í lögum.