Útflutningur hrossa

142. fundur
Miðvikudaginn 27. apríl 1994, kl. 14:44:05 (6662)


[14:44]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Það er kannski óþarfi fyrir mig að koma hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. þar sem ég er einn af flm. þess. En ég tel að það sé um tímabæra rýmkun að ræða að færa tímabilið til 1. maí frá því sem áður var 1. júní vegna þeirra nýjunga og framfara sem orðið hafa í flutningum. Það er hins vegar hægt að taka undir með hv. 9. þm. Reykv. að það er kannski óþarfi að kveða svona nákvæmt að í lögum og það væri hugsanlegt að treysta ráðuneytinu og starfsmönnum þar eins og yfirdýralækni til að setja bara reglugerðir um það hvenær heimilt er að flytja til útlanda hross á þennan hátt.
    En ég held að það hafi gætt aðeins misskilnings hjá hv. 9. þm. Reykv. þar sem hann var að fjalla um fornöfnin í greininni ,,þau`` og ,,það`` þar sem ég held að hann hafi misskilið að það hafi átt við fóðrið, þá tel ég að ,,það`` hafi átt við fóðrunina. En það er mjög mikilvægt atriði þegar verið er að flytja hross að þess sé gætt að starfsemi meltingarfæranna sé í sem bestu lagi því að eitt af því sem hrossum í flutningum er hættast við það er að fá hrossasótt. ( SvG: Síðan hvenær varð hvorugkyn kvenkyn?)
    Það sem um er að ræða er að hrossin séu í góðu ástandi, meltingarfærin starfi rétt og þau séu fóðruð á heyi sem er hrossum að öllu jöfnu eðlilegast fóður, eðlilegra en að fóðra þau á kögglum eða á korni. Þessi er ástæðan fyrir því að þetta er tekið fram í greininni og ég held að engin ástæða sé til að gera við það athugasemdir og ættum við að láta það standa.