Samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna

144. fundur
Fimmtudaginn 28. apríl 1994, kl. 17:57:24 (6751)


[17:57]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki að hve miklu leyti hæstv. sjútvrh. var að tala til mín þó hann kæmi á eftir minni ræðu því hann talaði hér fyrst og fremst um atvinnumannahóp. Ég minntist ekki einu orði á hann heldur talaði ég um Útvegsbændafélag Vestmannaeyja, sem hafði skrifað okkur hæstv. sjútvrh. bréf. Að vísu munu einhverjir þar vera þeir sömu. Ég veit t.d. að Arnar Sigurmundsson og Sighvatur Bjarnason munu vera í báðum hópunum og hæstv. sjútvrh. mun kannast við þá báða. En það sem ég var að gera var fyrst og fremst að spyrja hvort það væri ekki rétt sem kemur fram í bréfi Útvegsbændafélags Vestmanneyinga að þetta frv. muni nægja. Þeir eru síður en svo að mótmæla því. Svo virðist hæstv. sjútvrh. alls ekki hafa heyrt hvað Verkamannasamband Íslands var að segja í þessu máli. Er það þessi þröngi hagsmunahópur sem var að vara við þessum breytingum á stjórn fiskveiða?