Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 11:50:33 (6905)

[11:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð sérkennilegt á síðustu dögum þingsins að hlusta á stjórnarliða vera í svörum og andsvörum um meiningarmun sem er allmikill. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort sambandsleysi innan ríkisstjórnarflokkanna sé orðið svona mikið. Hér er í gangi 2. umr. um þetta mál sem virtist vera lítið mál þegar það kom fram en það býr oft ansi mikið að baki þeim málum sem ekki fer mikið fyrir á blaði.
    Hér eru sem sagt í gangi umræður um breytingar á tryggingagjaldi og það er rétt að spyrja hv. þm. Egil Jónsson að því hvort hann hyggist e.t.v. fara að taka upp þessi skattamál í landbn. Ég vil benda honum á það líka, sem hann hefur ekki enn þá komið fram með, að samkvæmt frv. eins og það liggur á borðinu fyrir framan okkur þá er hér um afturvirk lög að ræða því þau eiga að taka gildi 1. maí sem var í gær.