Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:25:43 (7017)

[23:25]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Í upphafi þessarar umræðu staglaðist hæstv. sjútvrh. á því að þessi sala hefði tekist vel. Menn hafa verið að hneykslast á því í allan dag en ég er ekki hissa. Vilji ráðherrans náði nákvæmlega fram að ganga. Því miður var þessi vilji ráðherrans almenningi dýr. Mig langar til, herra forseti, að lesa nokkur orð sem ég sagði þegar frv. til laga um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag var hér til umræðu, 28. okt. 1992. Þá sagði ég, með leyfi forseta:
    ,,Hér er um að ræða skref til einkavæðingar. Eins og ríkisstjórnin hefur meðhöndlað einkavæðinguna til þessa og eins og hún hefur birt áform sín um einkavæðingu og unnið að málinu hlýtur maður að hrökkva við þegar maður heyrir einkavæðinguna nefnda. Það er sannarlega ekki til fyrirmyndar hvernig haldið hefur verið á henni.
    Þetta er tekið í tveimur skrefum. Fyrst er stofnað hlutafélag og hvað breytist við hlutafélagsstofnunina? Jú, ráðherra kemur til með að hafa vald á stjórninni með öðrum hætti. Hún kemur ekki til með að starfa í umboði Alþingis. Ráðherra velur stjórnarmenn. Þetta á almennt við um þá breytingu að gera ríkisfyrirtæki að hlutafélögum. Ég er ekki búinn að sjá að þessi breyting skipti verulegu máli. Það er auðvitað ágætt fyrir ráðherrann að geta raðað þarna flokksbræðrum sínum. En að stjórnin verði starfhæfari fyrir það, því hef ég ekki trú á.
    Næsta skref, sem líka er í þessu tilfelli ýjað að að tekið verði, er að selja þetta fyrirtæki. Það væri kannski eðlilegra fyrir þá að tala um að afhenda fyrirtækið því það hefur venjulega verið reynslan þegar ríkisstjórnin hefur verið að einkavæða, að afhenda það sem fémætt er af eignum ríkisins einhverjum þóknanlegum aðilum. Hér er farið vinsamlegum orðum um að heimamenn geti gjarnan keypt þetta. Ég geri heldur lítið með það. Það er ekkert alveg víst að heimamenn hafi á hverjum stað tækifæri eða peninga til að ráðast í þessa fjárfestingu.``
    Þetta var það sem ég sagði 28. okt. 1992. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið en þessi spádómur hefur ræst nákvæmlega og hæstv. sjútvrh. hefur tekist ætlunarverk sitt og ég verð að segja að hann hefur sýnt ekki litla dirfsku. Hann hefur reyndar gert meira því hann hefur sýnt kristilegt hugarfar eins og kirkjumálaráðherra ber. Hann réttir þarna kolkrabbanum hinn vangann. Hann reiddist ekkert við kolkrabbann, hann var ekkert að erfa það við hann þó að kolkrabbinn hafi magnað á hann Davíð Oddsson á sínum tíma til þess að steypa honum úr formannsstóli í Sjálfstfl. Nei, nei, hann var bara góður við hann. ( Fjmrh.: Hvað er kolkrabbinn?) Það er hæstv. fjmrh. sem slapp og það er von að hann sé kotroskinn, þessi hæstv. frændi minn, í fjármálaráðherrastól sínum. Það er vegna þess að Davíð Oddsson gat þarna unnið dálítið fyrir þingsætinu sínu og skrifað undir. Hæstv. fjmrh. var úti í löndum einhvers staðar að pissa og hæstv. forsrh. fór með fjmrn. og skrifaði undir gerninginn og þar af leiðandi verður þessi hv. frændi minn, fjmrh., sýkn saka í málinu.
    Það eru valdir kaupendur, sérvaldir kaupendur, fyrirsvarsmenn til að taka við fyrirtækinu og síðan er farið að vinna að því að koma fyrirtækinu í hendur þeirra fljótt og örugglega og fyrir náttúrlega mildilegt verð.
    Það var ekki hægt að gefa Akureyringum frest. Það var ekki hægt að ganga siðmannlega að þessari sölu. Hæstv. sjútvrh. var að veifa hér löngum lista um kaupendurna, hve óskaplega breiður hópur hefði keypt þetta fyrirtæki. Og VÍB var falið að markaðssetja fyrirtækið og annast söluna. Af hverju vildi hæstv. sjútvrh. láta VÍB taka við þessu, jafnvel þó að VÍB þyrfti 9,5 millj. meira fyrir að annast söluna en Landsbréf buðust til þess að gera það? Jú, það var vegna þess að Verðbréfamarkaðurinn er tengdur Íslandsbanka og kaupendurnir voru, ýmsir þeirra, töluvert mikið tengdir Íslandsbanka. Það var betra að vera ekkert að láta þá Landsbankamenn vera að krafsa í þessi mál.
    Í þessum breiða lista kaupendanna eru sjö aðilar sem eiga samtals 278 millj. eða eru skrifaðir fyrir. Þeir hafa ekki þurft að borga þessar milljónir. Það eru sjö aðilar sem eiga rúm 42% í fyrirtækinu. Það eru 17 aðilar sem eiga 10--16 millj. eða samtals 232,5 millj. eða tæp 36%. Þarna sýnist mér að komin séu 78% á 24 hendur. Það eru 16 aðilar sem eiga 5--10 millj. eða rúm 15% og þá eru það orðin 93% og svo kemur breiði hópurinn sem hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, var að tala um, Siglfirðingarnir og Seyðfirðingarnir og Raufarhafnarbúarnir með sína 100 þús. kr. eða 50 þús. kr. Þeir eiga samtals 39 millj. kr. Þessir 140 aðilar sem þarna eru á þessum langa lista þeir eiga samtals 7% í fyrirtækinu og það verða ekki þeir sem ráða því. Stóru hluthafarnir koma til með að ráða fyrirtækinu og þeir eru flestir tengdir þessum fræga Íslandsbanka og hann er tengdur sjávardýri sem ég ætla ekki að nefna.
    Smáu hluthafarnir fara ekki að ómaka sig, þessir sem eiga 50 þús. kr., þeir fara ekki að ómaka sig á aðalfundi SR-mjöls til að gera þar byltingar. Þeir verða ánægðir og taka við arðgreiðslunum þegar þær verða sendar. Það verða auðvitað þessir sjö aðilar sem eiga 42% í fyrirtækinu, það nægir þeim alveg. Þeir

ráða þessu alveg. Þetta eru snilldarmenn, þ.e. harðskeyttir menn. Ég dái þá að vissu leyti fyrir hvað þeir hafa staðið snilldarlega að þessari yfirtöku. Þeir fóru um landið, þeir komu sér vel við fólkið, þeir buðu því að eiga þetta með sér. Þeir ætluðu bara að eiga 42% eða rétt um helming. Hinir mættu eiga restina. Svo komu menn með 50 þús. kr. sínar og 100 þús. kr. sínar, nei, þeir komu ekki með þær því þeir þurftu ekki að borga þær. Þeir þurftu að borga pínulítinn part af þessum aurum sem þeir skrifuðu sig fyrir. Þessi hópur sem stjórnar núna eru harðskeyttir bisnessmenn og ég trú þeim vel til þess að reka þetta fyrirtæki með verulegum hagnaði og það er alveg ábyggilegt að í árslok geta þeir greitt út arð a.m.k. ekki minni en þessar 65 millj. sem þeir sendu út mánuði eftir að þeir tóku við fyrirtækinu. Þessir menn hafa loðnuflotann á bak við sig. Þeir hafa mikinn hluta loðnuflotans á bak við sig. Þeir fengu þetta fyrirtæki fyrir ákaflega lítið verð, miklu minna en hálfvirði. Það hefur komið fram að það kostar upp undir milljarð að byggja verksmiðju eins og er á Seyðisfirði, fyrir utan allar hinar eignirnar.
    Það var ekki erfiðara að kaupa fyrirtækið, þeir tóku það ekki nær sér en það að þeir gátu borgað 10% arð strax nokkrum dögum eftir að þeir tóku við því. En með því að hafa loðnuflotann á bak við sig, með því að vera búnir að fá þessar verksmiðjur í hendur þá er þetta fyrirtæki innan örfárra ára orðið algjörlega markaðsráðandi í fiskimjölsiðnaði á Íslandi og þá ræður þetta fyrirtæki loðnuverði til sjómenna. Þá kann að vera komið annað hljóð í strokkinn. Auðvitað njóta þessir menn fyllsta trausts viðskiptamanna sinna og eins og hér hefur komið fram þá var í þessum samningum ekkert minnst á viðskiptavild. Það er ekki seld svo ómerkileg sjoppa að viðskiptavild sé ekki metin til fjár. Þetta fyrirtæki þurfti ekkert á því að halda. VÍB var ekkert að vesenast í svoleiðis smáatriðum.
    Málið er það að það þurfti ekkert að gera SR að hlutafélagi. Það var alveg óhætt fyrir ríkið að eiga það. Þær 400 millj. sem hæstv. landbrh. var að býsnast yfir áðan að ríkið hefði yfirtekið frá SR á sínum tíma voru fórnarkostnaðurinn við að gera fyrirtækið að hlutafélagi. Það var bara fórnarkostnaðurinn við það. Það var alveg óhætt fyrir ríkið að eiga þetta fyrirtæki. Það þurfti ekkert að selja það, það þurfti ekkert að selja þessum hópi Benedikts Sveinssonar eða Haraldar í Andra. Það þurfti ekki einu sinni að selja Akureyrarbæ. Af þessum þremur hefði ég talið eðlilegast að Akureyrarbær hefði fengið tækifæri til þess að eignast fyrirtækið eða bjóða í það.
    Hér er náttúrlega um að ræða einkavinavæðingu eins og hún er ógeðfelldust hjá þeim stjórnarherrum. Hér er um ákaflega spilltar stjórnvaldsaðgerðir að ræða og hæstv. sjútvrh. hefur orðið sér til minnkunar í þessu máli, hann er ánægður með að hafa getað þjónað sínum flokki og sínum sjávardýrum en hann hefur hagað sér eins og rangláti ráðsmaðurinn.