Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 17:58:11 (7142)


[17:58]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. 11. þm. Reykv. að hann nefndi tölur um hagkvæmni útgerðarinnar en þær voru ansi gamlar. Þær eru frá 1983--1984 eða eitthvað svoleiðis. Ég hef nýrri tölur handa honum. Afli hefur ekki aukist á dag hjá skipaflotanum og hjá minni togurum, undir 500 tonnunum, hefur afli yfir daginn minnað úr 10 tonnum á sólarhring í 8 tonn en er nokkurn veginn á sléttu hjá stærri skipunum.
    Síðan langar mig til að benda hv. þm. á þegar hann er að vitna í ágætan mann, Ragnar Árnason, að hann fullyrðir að helstu eiginleikar kvótakerfisins og þeir sem mest séu eftirsóknarverðir sé eignarréttur á fiskstofnunum. Hann bendir á það sem galla á kvótakerfinu að þessi eignarréttur sé ekki fullkominn. Ég vil benda á þetta vegna þess að ég taldi að það væri sátt um það í hv. Alþingi að menn ætluðu að halda 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða í heiðri.