Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 00:04:01 (7196)


[00:04]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem ég var fyrst og fremst að höggva eftir var að hv. þm. hefur margoft látið það koma fram að hann telji að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi sé nauðsynlegt fyrst og fremst til þess að stjórna sókninni í fiskstofnana. Það hefur aftur á móti komið greinilega fram hjá mörgum hagfræðingum sem hafa verið að fjalla um þetta mál að þeir líta öðruvísi á málið. Þeir segja það beint út: Það er hægt að stjórna því hve mikið er tekið úr hafinu með ýmsum öðrum aðferðum. En þetta kerfi er fyrst og fremst hagrænt kerfi og það hefur ekkert annað kerfi verið fundið sem skilar meiri hagnaði eða möguleikum til þess að auka arð í útgerð en þetta kerfi. Menn eru að vísu ekki sammála um þessa hluti, en stór hluti þeirra sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og tóku þá ákvörðun á sínum tíma að koma þessu fiskveiðistjórnunarkerfi á hefur staðið í þeirri meiningu að þetta væri fyrst og fremst kerfi til að stjórna fiskveiðum.