Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 21:23:48 (7323)


[21:23]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það frv. sem hér er á dagskrá, reynslusveitarfélög, því hér hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar talað og það er mjög í þeim anda sem ég vildi gjarnan sagt hafa.
    Eins og komið er fram þá hafa sveitarfélögin bundið miklar vonir við þessi reynslusveitarfélög og því olli það okkur vonbrigðum í hv. félmn. að við höfðum ekki meiri tíma en raun bar vitni til að fara yfir þetta mál því ég er alveg viss um það að við hefðum getað fínpússað þetta mál miklu betur. Ég ætla að koma með dæmi um 17. gr. frv., sem snýr að heimildum umhvrh. varðandi skipulagsmál. Á fund okkar kom skipulagsstjóri og með einu pennastriki þá afskrifuðum við 17. gr. frv. með brtt. því þegar við ræddum við skipulagsstjóra þá sáum við það að þessi grein átti alls ekki heima í frv. Það hefði kannski verið svoleiðis um fleiri greinar þessa frv. ef við hefðum haft betri tíma til að kafa ofan í málið. En því miður gafst enginn tími til að vinna þetta mál eins og skyldi.
    En eins og hér hefur fram komið þá eru sveitarstjórnarmenn mjög áhugasamir um það að þetta mál fái framgang á þessu þingi og við styðjum það en ég endurtek það að þetta er ekki nógu vel unnið, því miður. Heimildirnar eru opnar og það er kannski út af fyrir sig eðlilegt en eins og t.d. 14. gr. frv. er án breytinganna sem við svo gerðum í hv. félmn., þá mátti skilja 14. gr. þannig að það megi gera tilraunir með fagfólk á heilbrigðisstofnunum. Og þá er ég að tala um það að minna menntaður einstaklingur má fara inn í starfsgrein þar sem meira menntaður einstaklingur hefur verið áður. --- Og nú hristir hæstv. félmrh. höfuðið. En sökum þess að það var hægt að túlka þessa grein svona þá er lögð fram brtt. við þessa grein og það var alveg nauðsynlegt.
    Hefðum við farið betur ofan í hverja grein þá kann að vera að það hefðu komið enn þá fleiri brtt. upp.
    Það sem kannski gerir það að verkum að maður treystir sér til að styðja þetta mál er það að það kemur inn núna með þessum breytingum sem hafa orðið á síðustu dögum að fagnefndir Alþingis fá að fjalla um hvern samning fyrir sig. En auðvitað hefði verið eðlilegast að hver samningur sem gerður er við sveitarfélög um verkaskipti, því ég tel þetta ekkert annað en verkaskipti þó þetta sé tilraun þá eru þetta ekkert annað en verkaskipti í raun. Það hefði verið eðlilegt að hver samningur hefði komið fyrir hv. Alþingi til umsagnar og afgreiðslu. Ég sakna þess að það skuli ekki vera. En við erum búin að ganga

þá göngu til enda í minni hluta að við fáum það ekki samþykkt og þess vegna sættum við okkur við að það verði lögð fram skýrsla árlega til Alþingis og hver samningur fyrir sig komi til fagnefndar.
    En þetta er eflaust mjög vandrataður vegur sem hér er verið að fara en hann er í leiðinni spennandi, þetta er nýtt og þetta á að geta aukið sjálfstæði sveitarfélaga og þau sveitarfélög sem nú hafa sameinast sem eru mörg, t.d. í mínu kjördæmi, Vesturlandskjördæmi, þar hafa mörg sveitarfélög sameinast og þau horfa auðvitað til þessa frv. sem vonandi verður að lögum innan tíðar og það er kannski eina rúsínan sem þessi sameinuðu sveitarfélög sjá, það er að þau fái þarna aukin verkefni í hendur. Hæstv. félmrh. hefur tjáð sig um það á þingi að það séu ekki miklar vonir til þess að um miklar samgöngubætur í þessum nýsameinuðu sveitarfélögum verði að ræða sem þó voru fyrirheit um hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég hlýt að harma það enn og einu sinni og hlýt að spyrja hæstv. félmrh. hvort þessi reynslusveitarfélög fái að ráða sinni útsvarsprósentu. Þegar verið er að tala um sjálfstæði sveitarfélaga þá hlýtur það að koma inn í það í leiðinni hvort sveitarfélögin fái að ráða sinni álagningarprósentu. Það hlýtur að koma til greina. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki endanlega gert það upp við sig.
    Síðan ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta að svo stöddu og hef, eins og ég sagði áðan, ákveðið að styðja þetta mál þó að ég sjái að það eru margir endar lausir en þetta er tilraun og ég vona að þetta verði tilraunarinnar virði.