Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:03:45 (7330)


[22:03]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja varðandi þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram um að í reynslusveitarfélögum sé hægt að gera breytingar á eftirlitsskyldu Húsnæðisstofnunar tel ég alveg raunhæft og hef rökstutt mitt mál. Nefnd sem er á mínum vegum að fjalla um reynsluna af félagslega íbúðakerfinu, þar sem í eiga sæti m.a. fulltrúar Húsnæðisstofnunar, hefur einmitt farið yfir þennan þátt mála og telur þetta alveg raunhæft.
    Varðandi það ákvæði sem hér er talað um um breytingar á skipun á verkefnum húsnæðisnefnda þá hef ég engin sérstök áform uppi um það að setja fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar út úr húsnæðisnefnd. Þetta eru tillögur sem eru settar fram af verkefnastjórninni og það er ekkert slíkt í mínum huga. Ég get alveg eins hugsað mér að skoða breytingar á verkefnum húsnæðisnefnda en það er ekki í mínum huga að ég ætli að hafa einhverja forgöngu um slíkt.

    Varðandi það sem hv. þm. nefndi um tilhögun á úthlutun á félagslegum íbúðum þá tel ég það mjög áhugavert líkt og þingmaðurinn að slík heimild sé fyrir hendi að það sé hægt að úthluta fjármagni en ekki fjölda íbúða til reynslusveitarfélaga eins og gert hefur verið.
    Varðandi héraðsstjórnir eða þriðja stjórnsýslustigið sem hv. þm. nefndi þá held ég að við höfum farið í gegnum það fyrir nokkrum árum síðan og ég held að áhuginn hafi minnkað verulega á því eftir að menn hafa skoðað það mál betur og ég sé fleiri galla á því en kosti.