Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:50:29 (7341)


[22:50]
     Vilhjálmur Egilsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að hér sé um óskyld mál að ræða þótt skattlagning á húsaleigutekjum sé skattamál og heyri undir fjmrn. og húsaleigubætur séu mál sem heyrir undir félmrn. Þetta hefur áhrif hvort á annað og það þarf að skoða þessi mál í samhengi hvort við annað. Hvers vegna ekki hefur verið tekið á því, betur en nú er, að leigutekjur séu gefnar upp til skatts, þá hygg ég nú að það sé þannig að það hafi verið og sé sameiginlegt hagsmunamál leigjenda og húseigenda að húsaleiga sé ekki almennt gefin upp og að það sé erfitt að sanna í slíkum tilvikum hver leiga hafi verið.
    Síðan vaknar ein spurning í þessu sambandi. Ef það er nú svo að það er skoðun alls þess stóra hóps af fólki, sem er væntanlega yfirleitt venjulegt fólk með venjulega siðgæðisvitund, að það eigi ekki að borga skatta af leigutekjum og ekki gefa þær upp, þá er það stór spurning hvort lögin eigi að vera með þeim hætti að þau setji þennan stóra hóp af fólki í þá aðstöðu að vera að brjóta þau.
    Spurningin um það hvort þetta sé stjfrv. þá hygg ég að þetta sé að sjálfsögðu stjfrv. En ég hef við meðferð málsins í mínum flokki haft skýran fyrirvara um stuðning við þetta mál hvað snertir skattaþáttinn og hann hefur alla tíð legið fyrir og ég er þess vegna fyrst og fremst að lýsa minni afstöðu til þessa máls.