Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:32:38 (7363)


[23:32]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til þess að taka af allan vafa vegna ræðu hv. þm., þá vil ég endurtaka það sem ég hef margsinnis sagt hér í kvöld að ég tel að húsaleigubætur séu mikilvægar og við eigum að koma þeim á. Þær eigi að vera eftir atvikum viðbót við þann stuðning sem sveitarfélögin veita með sínu félagslega kerfi en það sé eðlilegt að samræma þetta.
    Hins vegar varðandi spurninguna um að þetta sé eftir vali sveitarfélaganna þá getur það út af fyrir sig verið svolítið hæpið. Einstaklingar geta staðið frammi fyrir því að sveitarstjórn taki ákvörðun um það að greiða ekki húsaleigubætur og þá verður viðkomandi einstaklingur af 60% sem ríkið á að greiða út þannig að ég hefði talið eðlilegasta kostinn að ríkið ákvæði hvaða fjárhæð færi til húsaleigubóta og síðan ættu sveitarfélögin að nýta hana til húsaleigubóta þannig að þau ættu ekki þetta val.