Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:25:20 (7370)


[00:25]
     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég held að það sé öllum ljóst að í frv. er ágætur tilgangur. Það er sá tilgangur að koma til móts við það fók sem greiðir húsaleigu og ekki fær neinn frádrátt. Það er hægt að færa gild rök fyrir því að í húsaleigunni sjálfri séu vaxtagjöld, þ.e. að hluta af húsaleigugreiðslunni megi flokka sem vaxtaútgjöld. Þannig hefur alltaf verið ákveðinn mismunur á milli þeirra sem annars vegar borga vexti og hins vegar húsaleigu. Að mínu mati hefur það verið einfaldast að telja að ákveðið hlutfall af húsaleigunni sé í reynd vaxtagjöld og skilagreina það sem venjulegar vaxtagjöld og þar með flokkist það undir skilgreiningu skattalaganna. Ég get því tekið undir það álit sem kemur fram í brtt. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur, Jóns Kristjánssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
    En í þessu frv. er farin ótrúlega flókin leið að þessu marki og ég ætla í sjálfu sér

ekki að hafa um það mörg orð. Ég vildi þó vekja athygli á einu máli sem ég tel vera mjög alvarlegt í þessu sambandi og það er sú staðreynd að hæstv. félmrh. krafðist þess við afgreiðslu skattalaga fyrir jólin að inn kæmi ákvæði að því er varðar búsetaíbúðirnar. Það ákvæði kemur inn í vaxtabótaákvæðið og er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Til vaxtagjalda hjá þeim sem kaupa eignarhlut í íbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993 teljast eingöngu vaxtagjöld af lánum sem þeir hafa tekið sjálfir vegna kaupa á eignarhlutanum.``
    Ef við hugsum okkur að búsetaíbúð kosti 10 millj. kr. þá er eignarhluti viðkomandi aðila 2 millj. kr. Ef svo illa vill nú til að sami aðili hefur tekið lán fyrir öllum sínum eignarhluta þannig að hann skuldi alla íbúðina þá á hann rétt að fá þessi vaxtagjöld til frádráttar, metin til vaxtabóta. Ef við tökum sem dæmi að á þessum lánum séu 8% vextir, sem eru mjög háir, því miður, þá eru það 160 þús. kr. En það vill svo illa til að viðkomandi aðili má ekki einu sinni hafa 3 millj. í tekjur til þess að þetta falli niður því að á móti reiknast 6% af tekjunum. Það lá þess vegna alveg ljóst fyrir að þegar þessi lög voru sett að þetta kæmi ekki að nokkru gagni fyrir þetta fólk, að engu gagni fyrir einn einasta mann nema þá í einhverjum algerum undantekningartilvikum þar sem ljóst er að viðkomandi getur ekki greitt af lánum sínum. Samt krafðist hæstv. félmrh. þess að þetta færi hér í gegn. Og á hvaða forsendum var það gert? Vegna þess að eitthvað ágætis fólk hafði komið til hennar og beðið um það, væntanlega gegn betri vitund. Það var sagt að fyrst beðið væri um þetta þá væri best að gera það, jafnvel þó að vitað sé að það komi ekki að nokkru gagni. Hvers konar pólitík er það að fallast á slíkt?
    Síðan er komið að húsaleigubótunum því að áður hafði þetta verið skilgreint sem húsaleiga. Þá er náttúrlega ljóst að þetta fólk kemst ekki inn í húsaleigubótakerfið vegna þess að það er komið inn í vaxtabótakerfið. Þar með er þetta fólk endanlega komið út á gaddinn í þessum ferðum sínum til hæstv. félmrh. undanfarin ár. Ég veit ekki betur en að hér sé um fleiri hundruð fjölskyldur að ræða. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Ég sé ekki að það sé að ástæðulausu að beðið er um að þetta mál verði skoðað aðeins betur og það tekið fyrir aftur í nefnd.
    Hæstv. félmrh. var ítrekað varaður við að þessi lög yrðu sett og við í stjórnarandstöðunni vorum á móti þessu ákvæði og margvöruðum við. Það var ekki hlustað það, þótti ekki ástæða til. Vegna þess að það hafði einhver beðið um þetta. Var verið að leiða þetta fólk í gildru? Var verið að losa sig við ónæði þess um stundarsakir? Ég veit að í dag telur þetta fólk sig svikið af því sem þarna var gert og lifir í þeirri góðu trú að það standi til að leysa þeirra mál með sambærilegum hætti og annarra við þessa umfjöllun. Ég minni líka á að þessi ákvæði eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Það sama á við um vaxtabæturnar líka. Núverandi vaxtabótakerfi eins og það er í skattalögum á ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Við í stjórnarandstöðunni fórum þess á leit að þetta yrði allt saman tekið fyrir og sett á nýjan leik í nefnd því núverandi vaxtabótakerfi er á margan hátt meingallað en hæstv. félmrh. mátti ekki heyra það nefnt. Ég vildi aðeins, herra forseti, koma þessum áhyggjum mínum hér á framfæri og benda á þá staðreynd hvernig þessi hópur, þ.e. þeir sem búa í búsetaíbúðunum, er gjörsamlega skilinn eftir í þessu sambandi.