Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:35:14 (7372)


[00:35]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta ákvæði kom inn eftir að umfjöllun í efh.- og viðskn. var lokið, á síðustu stundu. Það gekk svo mikið á að það varð að drífa þetta í gegn þrátt fyrir mjög alvarlegar athugasemdir. Ef aðilar fara fram á að fá réttarbót þá býst ég við því að flestir standi í þeirri trú að þeir séu að fá raunverulega réttarbót. Og ef þeim sem vilja standa að réttarbótinni má vera það ljóst að hún er engin eins og er svo augljóst í þessu að það þarf ekki lengi að lesa skattalög til að sjá að það skiptir einmitt engu máli fyrir þetta fólk. Það vissi hæstv. félmrh. og mátti vita það. En þrátt fyrir það varð ráðherra að geta sagt að það væri tekið á þessu máli og eitthvað gert. En það var bara svo slæmt að þetta sem var gert hafði enga þýðingu. Nú er það að koma í ljós. Auðvitað var það ljóst þegar lögin voru sett.