Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:04:58 (7402)


[02:04]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu skiptir þessi upphæð máli fyrir bændur eins og öll önnur útgjöld og ég sé ekki hvað þetta kemur dagblaðinu Tímanum við. Ég veit að hæstv. fjmrh. er almennt á móti því að menn lesi önnur blöð en Morgunblaðið og hann hefur lagt sig mjög fram um það í sinni fjármálaráðherratíð og væri ástæða til að fara um það nokkrum orðum hér fyrst hann vekur upp þessa umræðu.
    Ég vil t.d. geta þess að ríkið keypti eitt eintak af vikublaðinu Austra hér áður, eitt eintak, og til þess að reyna að bjarga við fjárhag ríkisins, þá fór fjmrh. í það mikla þrekvirki að skrifa sérstakt bréf til vikublaðsins Austra og segja upp þessu eina blaði því það mátti að sjálfsögðu ekki sjást inni í Stjórnarráðinu. Og þótt hæstv. fjmrh. hafi lagt sig mjög fram um það að reyna að koma því til leiðar að ekkert blað yrði lesið annað en Morgunblaðið og reynt að leggja sig fram um það, þá vænti ég þess að það gildi ekki það sama um bændur landsins.